Barokkhátíðin á Hólum
Barokkhátíðin á Hólum verður nú haldin í sjötta sinn. Á hátíðinni kemur saman jafnt áhugafólk um barokktímann sem atvinnufólk í tónlist og öðrum greinum. Boðið er upp á dansnámskeið þar sem fólk getur æft sig í léttum barokkdönsum undir leiðsögn Ingibjargar Björnsdóttur. Jón Þorsteinsson söngvari heldur meistaranámskeið í söng fyrir opnum dyrum, haldnir verða hádegistónleikar fimmtudag, föstudag og laugardag, fleiri tónleikar, fræðslufyrirlestrar og margt fleira. Venjan er að ganga eitt kvöldið upp í Gvendarskál og minnast Guðmundar góða biskups og hátíðinni lýkur með messu sunnudaginn 29. júní kl. 11 í Hóladómkirkju hátíðartónleikum klukkan 14. Sérstakur gestur hátíðarinnar í ár verður breski fiðluleikarinn Peter Hanson sem æfir hljómsveit hátíðarinnar og stýrir henni á hátíðartónleikunum. Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur heldur fyrirlestur um það sem fornleifauppgröftur á Hólum undanfarin ár hefur varpað ljósi á um Hólastað á barokkímanum.