Edrúhátíð SÁÁ
Edrúhátíð SÁÁ er haldin um verslunarmannahelgina á hverju ári. Hátíðin er fyrir alla þá sem vilja skemmta sér án áfengis. Edrúhátíðin er fjölskylduhátíð þar sem boðið er upp á tónleika, barnaleiksýningar, íþróttakeppni, listasmiðju fyrir börn, 12 spora fundi, yoga, nudd, zúmbadans, gönguferðir, kvöldvöku, varðeld, söngkeppni og margt fleira. Boðið er upp á tjaldstæði þar sem gestir geta tjaldað og gist. Öll aðstaða er til fyrirmyndar. Hægt er að kaupa mat og drykk á góðu verði í matsal Laugalandsskóla sem er við tjaldstæðið. Íþróttahúsið við skólann nýtist líka vel í allskonar viðburðum. Sundlaugin er opin alla daga. Hátíðin er aðeins fyrir þá sem ætla ekki að neyta áfengis eða annarra fíkniefna þessa helgi.