Fiskidagurinn mikli
Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er haldinn hátíðleg í Dalvíkurbyggð helgina eftir verslunarmannahelgi. Fiskverkendur og fleiri framtakssamir í byggðarlaginu bjóða, með hjálp góðra styrktaraðila, landsmönnum öllum upp á dýrindis fiskrétti, milli kl. 11:00 og 17:00 á laugardeginum Matseðilinn breytist ár frá ári þó ávallt sé boðið upp á ákveðna vinsæla rétti. Öllum réttum fylgja brauð og drykkir eins og hver getur í sig látið. Vináttukeðjan er hugljúf dagskrá á sviði við kirkjuna á föstudeginum þar er tónlist, skemmtun, friðardúfum sleppt og risaknús í lokin til að leggja línurnar fyrir helgina. Á föstudagskvöldinu bjóða íbúar byggðalagsins gestum og gangandi upp á fiskisúpu í heimahúsum og görðum. Afar vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá prýðir hátíðina ár hvert. Markmið hátíðarinnar er að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk.