Events

Events

Hammondhátíð Djúpavogs

Hammondhátíð Djúpavogs, sú 9. í röðinni fer 24.-27. apríl 2014. Fram koma Todmobile, Skonrokkshópurinn, Mono Town, Raggi Bjarna, Vax og RockStone.

Hammondhátíð Djúpavogs er fjögurra daga tónlistarhátíð sem hefur það að meginhlutverki að heiðra og kynna Hammondorgelið. Er það gert með því að fá tónlistarmenn, allt frá heimamönnum til landsþekktra, til að leika listir sínar og er Hammondorgelið rauði þráðurinn í gegnum alla dagskrána.

Hammondhátíð Djúpavogs er ávallt sett á á sumardaginn fyrsta sem ber upp á fimmtudegi, en það hefur jafnan verið nefnt heimakvöld á Hammondhátíð. Það hefur þó þróast á síðustu árum í austfirskt kvöld, þar sem leitast er eftir því að finna tónlistarmenn og hljómsveitir á Austurlandi til að spila í bland við heimamenn. Tónleikar eru svo á föstudags- og laugardagskvöldinu en þar er reynt að fá stærri og þekktari nöfn til að leika. Hátíðinni er svo slitið með tónleikum í Djúpavogskirkju, en jafnan er þar einsöngvari ásamt hammondleikara.

Í gegnum árin hafa í kringum Hammondhelgina sprottið upp fjölmargir aðrir viðburðir. Handverksfólk og hönnuðir hafa verið mjög áberandi með sínar afurðir og mikið um að vera í bænum.

Listinn yfir þá tónlistarmenn og hljómsveitir sem komið hafa fram á hátíðinni í gegnum tíðina er orðinn langur og glæsilegur og hafa hljómsveitir og listamenn á borð við Hjálma, Baggalút, Dúndurfréttir, Megas, Stórsveit Samma, Jónas Sig og Ómar Guðjóns, Magnús og Jóhann og Nýdönsk heiðrað tónleikagesti með nærveru sinni. Allt í allt hafa um 130 tónlistarmenn stigið á stokk á Hammondhátíð. Þá hafa ófáir austfirskir tónlistarmenn komið fram auk þess sem þáttur heimamanna hefur verið rómaður en um 50 tónlistarmenn og konur frá Djúpavogi hafa tekið þátt frá upphafi.

Hammondhátíð 2013 sló öll aðsóknarmet en um 750 manns mættu á viðburðina fjóra og hafi hátíðin ekki verið búin að því, þá stimplaði hún sig endanlega inn sem ein af áhugaverðustu tónlistarhátíðum landsins.

Hammondhátíð er orðinn langstærsti menningarviðburður Djúpavogs og í ár var bærinn fullur af fólki frá fimmtudegi til sunnudags. Það þarf því ekki að hafa mörg orð um hve mikils virði þessi hátíð er t.a.m. fyrir ferðaþjónustuaðila, verslun, handverksfólk og alla þá sem bjóða einhverskonar þjónustu, enda fer viðburðum í tengslum við þessa hátíð fjölgandi ár frá ári. Ekki síst er hún mikilvæg fyrir íbúana; í þessu samheldna samfélagi er landsmönnum öllum boðið upp á frábæra tónlistarhátíð, hátíð sem er sú eina sinnar tegundar í heiminum.


Finna miða