Events

Events

Hinsegin dagar í Reykjavík

Mannrréttindi, margbreytileiki og menning

Á hverju sumri höldum við Hinsegin daga í Reykjavík og tileinkum hátíðina hinsegin fólki á Íslandi, baráttu þess, frumkvæði og gleði. Dagana 5.–10. ágúst 2014 bjóðum við upp á fjölbreytta dagskrá sem nær hámarki með göngu um miðborg Reykjavíkur 9. ágúst þar sem þúsundir Íslendinga safnast saman og baða sig í gleðinni.

Á Hinsegin dögum sameinast lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og trans-fólk ásamt fjölskyldum sínum og vinum og staðfesta þar stöðu sína sem stoltir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Hátíðin er tækifæri okkar allra til að ræða stöðu hinsegin fólks í samtímanum og minna á að mannréttindasigrar liðinna ára sem unnust með sameiginlegu átaki íslensks hinsegin fólks. Að sama skapi minna Hinsegin dagar á ábyrgð Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu, þá staðreynd að Íslendingum er skylt að tala máli mannréttinda og verja þá sem sæta ofsóknum fyrir kynhneigð sína eða kynvitund hvar sem er í heiminum.

Hinsegin dagar eru eitt af leiðandi öflum menningarlífsins hér á landi, lifandi dæmi um það hvernig beisla má orkuna sem býr í grasrótinni á jákvæðan hátt og skapa fjölsótta menningarhátíð. En ef ekki væri fyrir framlag fjölda sjálfboðaliða færi velgengni hátíðarinnar fyrir lítið. Um leið og við þökkum öllum þeim sem leggja hátíðinni lið með óeigingjörnu starfi sínu, bjóðum við íslenska og erlenda gesti hjartanlega velkomna til fimmtándu hátíðar Hinsegin daga í Reykjavík.

 

Nánari upplýsingar um viðburði er að finna í heimasíðu Hinsegin daga og í dagskrárritinu sem gefið er út árlega í byrjun júlí.