Hrafnkelsdagur
Hvers konar maður var Hrafnkell Freysgoði og hvar hafði hann verið búsettur? Hvernig var Eyvindur veginn og hvar? Hvernig var klæðnaður Íslendinga á tímum Hrafnkels? Hvernig lifði og lék fólkið þá? Hvað með bardagatækni og vopn?
Félag áhugamanna um Hrafnkelssögu og sögutengda ferðaþjónusta á Héraði, eða Hrafnkelssögufélagið eins og það er yfirleitt kallað, var stofnað formlega í desember árið 2005 til að efla menningarlíf á Fljótsdalshéraði og kynna betur söguarf svæðisins.
Sunnudaginn 3.ágúst 2014 verður haldinn hinn árlegi Hrafnkelsdagur með rútuferð og dagskrá að Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Ferðin hefst kl.13 á Egilsstöðum og tekur um þrjár klukkustundir. Á leiðinni er stoppað og sagt frá ýmsum stöðum sem nefndir eru í sögunni, auk annarra upplýsinga og kveðskapar. Ekið er inn Vellina að Hengifossi. Þar er horft yfir í Hrafnkelsstaði áður en haldið er yfir heiðina, svo og ofan í Hrafnkelsdalinn að Aðalbóli. Áhugasamir fara úr rútunni fyrir ofan og ganga seinasta spölinn að Aðalbóli, um 30 mín. ganga. Börn og fullorðnir hafa gaman af rútuferðinni.
Þeir sem fara ekki með rútunni geta ekið í Hrafnkelsdal og tekið þátt í dagskránni þar.
Að Aðalbóli er boðið upp á ýmis konar skemmtanir. Byrjað er á leikþætti eða fræðsluerindi um Hrafnkelssögu og umhverfið. Síðan eru leikir, æfingar í vopnanotkun, smiðjur, handavinna eða slíkt svo að gestir kynnist ýmsum þáttum úr lífi manna á tímum Hrafnkels Freysgoða. Næst snæða menn Faxasteik (grillað hrossakjöt og meðlæti að hætti Ferðaþjónustu Sáms – Sámsbar) en endað er á kvöldvöku með varðeld, kveðskap, rímnasöng, fróðleik um víkingatengd efni eða dansi. Gestir stíga aftur upp í rútuna eða bílinn sinn um kl.21 og halda af stað heim. J
Misstu ekki af næsta Hrafnkelsdegi, sunnudaginn 3.ágúst 2014! Nánari upplýsingar síðar.