Lunga
LungA hátíðin verður haldið í 15. skiptið dagana 13. – 20. júlí 2014 á Seyðisfirði. Í boði verður framsækin og metnaðarfull dagskrá, þekktir og minna þekktir listamenn alstaðar að úr heiminum koma fram og/eða stýra, listasmiðjum. Einnig er boðið upp á myndlistasýningar, gjörninga, uppákomur, ungmennaskipti, uppskeruhátíð listasmiðjanna, DJ partý og stórtónleika á útisviði.
Á Seyðisfirði búa um 670 manns og er lífið í þessum fallega firði að öllu jöfnu mjög rólegt. LungA lífgar bæjarlífið hressilega við og taka bæjarbúar því flestir fagnandi að bærinn fyllist af ungu fólki.
LungA hátíðin var stofnuð aldamótaárið 2000 og hefur frá upphafi staðið fyrir listasmiðjum sem eru enn í dag kjarni hátíðarinnar. LungA hefur vaxið að gæðum og umfangi ár frá ári en aðalmarkmið hátíðarinnar hefur verið að vekja athygli ungmenna á menningu og listum, að virkja sköpunarkraftinn, víkka sjóndeildarhringinn og að koma ungmennum í tengsl við starfandi listamenn.
Fjöldi listamanna hafa komið með listsköpun sína í farteskinu til Seyðisfjarðar á dögum LungA, en hátíðin stendur yfir í heila viku. Meðal leiðbeinenda sem komið hafa á LungA má nefna Mugison, Godd, Dark Matters, Sögu Sig og Henrik Vibskov. Af hljómsveitum má nefna FM Belfast, Trentemöller, Lazyblood, GusGus, Trabant, Hjaltalín, Ojba-Rasta, Retro Stefson, Hermigervil, DJ Medhi, DJ Margeir, Mínus, Mugison ofl. ofl. Dagskráin fyrir árið 2014 er kynnt á www.lunga.is.
Hátíðin hefur hlotið margar viðurkenningar og var m.a. handhafi Eyrarrósarinnar árið 2006. LungA er ekki ágóða drifin hátíð heldur skilgreind sem “Non profit” hátíð.