Menningarnótt
Menningarnótt í Reykjavík verður haldin í nítjánda sinn þann 23. ágúst 2014. Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum eða söfnum, fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum. Yfirskrift hátíðarinnar er „Gakktu í bæinn!“ sem vísar til þeirrar gömlu og góðu hefðar að bjóða fólk velkomið og gera vel við gesti.
Menningarnótt markar upphaf menningarárs borgarinnar þegar söfn, leikhús og aðrar menningarstofnanir og listamenn hefja sína haust- og vetrardagskrá. Hún er fastur liður í viðburðavertíð borgarinnar, haldin seinnipart ágúst hvert ár. Markmið Menningarnætur er að hvetja til menningarþátttöku með því að reiða fram fjölbreytt og ríkulegt framboð af menningarviðburðum sem gefur breiðum hópi fólks færi á að smakka á því sem koma skal og láta koma sér á óvart.
Með yfir 100.000 gesti og 600 viðburði er Menningarnótt stærsta og þekktasta hátíð landsins. Dagskráin er þverskurður af menningar- og listflóru borgarinnar þar sem fram eru bornir viðburðir er taka til tónlistar, sviðslista, hönnunar og arkítektúrs, bókmennta, sýninga á ljósmyndum og myndlist, kvikmyndum og nýmiðlum og svo mætti lengi telja. Allir viðburðir hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu og er þar með séð til þess að allir borgarbúar óháð efnahag og stöðu, geti notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru frá hádegi til miðnættis.
Höfuðborgarstofa er ábyrgðaraðili að Menningarnótt. Hlutverk hennar er að halda utan um alla almenna skipulagningu og viðburði, standa að útgáfu dagskrár og kynningu á viðburðum hátíðarinnar. Viðburðir Menningarnætur eru skapaðir og framkvæmdir af menningar- og listastofnunum, félagasamtökum, fyrirtækjum listamönnum og öðru hugmyndaríku fólki í Reykjavík. Fjölmargir aðrir styðja einnig hátíðina með ýmsum hætti.