Events

Events

Rauðasandur Festival

  • Rauðasandur festival

Rauðasandur Festival er lítil tónlistarhátíð í náttúruperlunni Rauðasandi á Vestfjörðum sem stofnuð var íbyrjun árs 2011 og haldin í fyrsta sinn í júlí 2011. Umhverfið er sláandi fagurt á þessum afskekta stað og er tónlistin og öll afþreying í takt við staðsetningu og lagt upp með að gera hátíðina jafn hlýja og sandinn. Lögð er áhersla á upprennandi popptónlistarmenn og kántrýskotið þjóðlagapopp í tónlistardeildinni en einnig er Rauðasandur Festival vettvangur fyrir hverskonar skapandi einstaklinga að koma fram hvort heldur er jógakennara eða gjörningalistamenn, leiðsögumenn og galdrakonur. Jóga á sandinum og gönguferðir á söguslóðir, sandkastalakeppnir, bátsferðir reipitog og leikir eru dæmi um fjölbreytileika annarra uppákoma á svæðinu. Hátíðin er fjölskylduvæn og koma smábörn jafnt sem unglingar með foreldrum sínum og skemmta sér í bland við ungt fólk og miðaldra. Allir sem kunna að meta tónlistina og uppákomurnar sem boðið er upp á, kunna að skemmta sér á fjölskylduvænni hátíð og virða náttúruperluna Rauðasand eru velkomnir. Að hátíðinni standa nokkrir vinir sem langaði að halda gott partý úti í sveit. Eftir vel heppnaða prufukeyrslu 2011 var ákveðið að gera Rauðasand Festival að árvissum viðburði.

Rauðasandur Festival er haldin á býlinu Melanesi, þar sem nýlega er hafin uppbygging á ferðaþjónustu. Ótrúlegar náttúruperlur og sögufrægir staðir eru innan göngufæris. Meðal þeirra sem fram hafa komið á hátíðinni eru Lay Low, Ylja, Prinspóló, Snorri Helgason, Low Roar, Svavar Knútur, 1860, Illgresi, Myrra Rós, Johnny Stronghands, Borko, Samaris, Mr. Silla, og Ásgeir Trausti Hátíðin var haldin í þriðja sinn árið 2013 og er í stöðugri þróun en mun þó alltaf halda í ræturnar og vera þessi litla, fjölskylduvæna hátíð sem lagt var af stað með í upphafi. Það skal tekið fram að gestir undir 20 ára aldri verða að vera í fylgd foreldra. Frítt er inn á hátíðina fyrir 14 ára og yngri í fylgd með foreldrum.


Finna miða