Events

Events

Reykjavík Fashion Festival

Reykjavík Fashion Festival (RFF) er hátíð þar sem helstu fatahönnuðir Íslands koma saman og sýna hönnun sína. RFF var stofnað árið 2009 og má segja að hátíðin sé afsprengi efnahagshrunsins og þeirrar samstöðu sem myndaðist á meðal íslenskra hönnuða á þeim tíma. Meginmarkmið RFF er að markaðssetja og vekja athygli á íslenskri fatahönnun og þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast.

Fyrsta hátíðin var haldin í marsmánuði árið 2010 og hefur hún verið haldin árlega síðan. Hátt í 180 manns taka þátt í undirbúningi RFF ár hvert og stendur undirbúningurinn yfir í sex mánuði. RFF hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt og verið frábær vettvangur fyrir hæfileikaríka íslenska fatahönnuði og má segja að hún hafi fest sig í sessi sem ein af aðalhátíðum Reykjavíkur.

Hátíðin verður haldin í fimmta sinn í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu samhliða HönnunarMars dagana 27.-30. mars 2014. Fjöldi íslenskra fyrirtækja og aðdáenda íslenskrar hönnunar sækja Reykjavík Fashion Festival en einnig verður 40-60 erlendum fagaðilum úr tískuiðnaðinum boðið á hátíðina.

Almenn markmið RFF eru að skapa heildrænan og faglegan grunn fyrir íslenska fatahönnun til framtíðar. Einn þáttur í því er að byggja upp sterkt tengslanet og miðla þekkingu milli innlendra og erlendra fagaðila. RFF leggur einnig áherslu á að vekja athygli á íslenskri hönnun bæði hérlendis og erlendis. RFF telur að ekkert sé því til fyrirstöðu að íslensk fatahönnun komist á þann stall erlendis sem íslensk tónlist hefur skapað sér.

Reykjavík Fashion Festival (RFF) er einstakur vettvangur fyrir íslenska hönnuði og veitir þeim tækifæri til að sýna verk sín í sameiningu og skapa þannig sterka ímynd þeirra á Íslandi sem og á erlendri grundu.