Reykjavík Midsummer Music
Reykjavík Midsummer Music er alþjóðleg tónlistarhátíð í Hörpu sem fram fer í júní á hverju ári. Víkingur Heiðar Ólafsson stofnaði hátíðina árið 2012 og er listrænn stjórnandi hennar.
Reykjavík Midsummer Music hefur þegar vakið athygli fyrir tónlistarflutning á heimsmælikvarða og kraftmikla og frumlega dagskrá. Hátíðin var valin Viðburður ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2012 og hlaut sérstök nýsköpunarverðlaun, Rogastans, sem veitt voru í fyrsta sinn það ár.
Reykjavík Midsummer Music teflir frábæru íslensku listafólki saman við þekkta erlenda tónlistarmenn, dansar á flekamótum ólíkra listforma og leitast við að gera hverja hátíð ólíka þeim sem á undan hafa komið.
Í ár hverfist dagskrá hátíðarinnar um þemað Minimal-Maximal og verður mun umfangsmeiri en áður. Tónleikar, gjörningar, off-venue viðburðir, DJ-sett og spunaverk verða framreidd fyrir áheyrendur dagana 13.-16. júní. Meðal listamanna eru Grammy-verðlaunaða kammersveitin Mahler Chamber Orchestra sem margir telja til fremstu hljómsveita okkar tíma, ólíkindatólið Pekka Kuusisto nýbakaður verðlaunahafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, DJ Georg Conrad, Ghostigital, Amihai Grosz lágfiðluleiðari Berlínar Fílharmóníunnar, Davíð Þór Jónsson og margir fleiri.
Finna miða