Events

Events

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

  • Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Frá því um 1920 hafa íþróttafélögin Þór og Týr annast hátíðina, alla jafna sitt árið hvort. Árið 1997 voru Þór og Týr sameinuð og heldur hið sameinaða félag ÍBV-íþróttafélag Þjóðhátíðina nú. Mikil er sönghefð hefur skapast á hátíðinni og hún þróast í eina metnaðarfyllstu tónlistarhátíð landsins. Þjóðhátíðarlag er fastur liður, samið er nýtt lag og tileinkað hverri hátíð. Fyrsta þjóðhátíðarlagið var  SETJUMST AÐ SUMBLI árið 1933 eftir Oddgeir Kristjánsson og texta eftir Árna úr Eyjum. Kunnust Þjóðhátíðarskálda frá fyrri árum Árni úr Eyjum, Ási í Bæ og Oddgeir Kristjánsson nú síðustu ár hafa Hreimur Heimisson, Kristján Kristjánsson, Magnús Eiríksson og Ásbjörn Mortens samið tónlist tileinkuð hátíðinni svo einhverjir séu nefndir.

Þjóðhátíðin hefur alla jafna verið haldin í Herjólfsdal, nema árin 1973-1976 meðan Herjólfsdalur var þakinn vikri eftir eldgosið. Á þeim árum var hátíðarsvæðið á Breiðabakka suður undir Stórhöfða. Svæðið hefur ávallt verið prýtt fallegum skreytingum og í seinni tíð hefur ákveðið þema verið rauður þráður í skreytingu mannvirkja. Flestir hátíðargestir af fastalandinu hafa legið við í tjöldum, þó hefur það færst í aukana að Eyjamenn leigi húsnæði til gesta.

Hápunktar í dagskrá Þjóðhátíðar eru hefðbundnir og hafa staðist tímans tönn. Þessir dagskrárliðir eru brenna á Fjósakletti á föstudagskvöldi, vegleg flugeldasýning á laugardagskvöldi, brekkusöngur og blys á sunnudagskvöldi. Árið 1929 er fyrst getið um brennu á Fjósakletti en þegar árið 1903 eru nefndir flugeldar. Bjargsig er fyrst nefnt á 17. júníhátíðinni 1911 en um 1920 er talað um bjargsig í Dalsfjalli eins og fastan sið á þjóðhátíð og hefur verið svo síðan. Þjóðhátíð er fjölskylduhátíð í háum gæðaflokki. Þar er gleðin ríkjandi afl, þar er kynslóðabilið brúað. Engin önnur útihátíð á sér sögulegri rætur. Þjóðhátíð Vestmannaeyja hefur aldrei fallið niður, hvorki vegna veðurs eða náttúrhamfara!


Finna miða