Það er líf og fjör á Skólavörðustíg í þessum töluðum orðum þar sem Reykjavík Bacon Festival er í fullum gangi fjórða árið í röð. Um er að ræða mikla matarhátíð undir yfirskriftinni Matarhátíð alþýðunnar en fjölmargir veitingastaðir munu selja beikoninnblásna rétti í matartjöldum víðs vegar á Skólavörðustígnum. Ágóði af hátíðinni rennur til Umhyggju, styrktarfélags langveikra barna. Hátíðin er haldin af nokkrum vinum og er skipulagningin öll unnin í sjálfboðavinnu og munu 60 sjálfboðaliðar frá Veraldarvinum hjálpa til á hátíðinni ásamt fleirum. Leiktæki, beikon og skemmtiatriði verða í boði fyrir alla fram eftir degi.