From the blog

From the blog

Blómstrandi dagar í Hveragerði

1381268_1458782607714259_4102508505251890971_n

Blómstrandi dagar í Hveragerði byrjaði í gær og stendur til sunnudags. Mikið verður um dýrðir yfir helgina og ber dagskráin merki um það.

Á laugardeginum verður Ísdagurinn mikli hjá Kjörís en þá er öllum Íslendingum boðið upp á ís í miklum mæli. Skemmtidagskrá verður á Kjörísplaninu þar sem Ingó, Lína langsokkur og fleiri gestir leika og syngja. Einnig verður fjölbreytt fjölskyldudagskrá á Fossflöt alla helgina þar sem m.a. lifandi bréfdúfur verða til sýnis í opnum búrum, Hljómlistarfélag Hveragerðis verður með Norðurlandameistaramót í limbó, Brúðubíllinn kemur í heimsókn og leikhópurinn Lotta sýnir Hróa hött og Þyrnirósu. Fornbílar verða áberandi í bænum og munu bílarnir verða til sýnis við íþróttahúsið á laugardeginum. Ýmis leiktæki verða í bænum fyrir þá sem þora eins og aparólan yfir Reykjafoss, wibit þrautabraut í sundlauginni, veltibíllinn, vatnabolti, bubblebolti, hoppukastalar, tívolí og margt margt fleira.

Tónlistarveisla við allra hæfi

Tónlistin skipar stóran sess á hátíðinni og munu margir glæsilegir tónlistarmenn stíga á stokk eins og Hljómsveitin Ylja sem hefur verið að gera það gott víða erlendis að undanförnu og má enginn láta þessa tónleika fram hjá sér fara, Matti Matt og Pétur rokka í Eden, Bergþór Pálsson og Brynhildur Guðjónsdóttir syngja vel þekkta franska slagara m.a. Edith Piaf lög. Grínistinn og uppistandarinn Þorsteinn Guðmundsson kitlar hláturtaugarnar og ekki má gleyma okkar frábæra blúsbandi Lucy in blue. Hljómsveitin Stuðlabandið leikur á blómadansleik á Hótel Örk á laugardagskvöldinu og verður krýnd blómadrottning. Hápunktur laugardagsins er brekkusöngurinn í Lystigarðinum en þar stýrir Ingó Veðurguð brekkusöng og mun flugeldasýningin verða stórglæsileg í ár.

Fjölbreyttar sýningar og markaðir

Ýmsar sýningar verða þessa daga. Í Listasafni Árnesinga stendur yfir sumarsýningin, Snertipunktar. Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk eftir sjö íslenska myndlistarmenn sem fæddir eru á árunum 1948-1966. Í Bókasafninu, Sunnumörk, verður hinn árlegi bókamarkaður. Einnig mun Ævar vísindamaður koma fram á uppskeruhátíð sumarlestrar. Í Þorlákssetri, húsi eldri borgara verður vatnslitamyndasýning Sæunnar Grímsdóttur og bókmenntadagskrá. Myndlistarfélag Árnesinga verður með sýningu í leikfélagshúsinu við hliðna á Eden. Í Garðyrkjustöð Ingibjargar verður blómamarkaður og á laugardeginum verður kynning og sala á heilsuvörum. Ingibjörg býður gestum upp á kaffi og kleinur frá kl 15. Á uppistandandi veggjum í Eden er myndskreytingasýning Örvars Árdal og einnig verður markaðs- og skottsala á planinu við Eden frá kl. 13 – 17 og eru allir velkomnir að koma með bílinn og selja úr skottinu eða stilla upp borði eða slá. Tískusýningin verður á sínum stað og grænmetismarkaður verður á leikhúsplaninu við hliðina á Eden. Hjálparsveit skáta sýnir hjálparbílaflota sinn og verður öllum boðið að spreyta sig í kassa- og turnklifri.