Edrúhátíð SÁÁ fer nú fram en Edrúhátíð SÁÁ hefur nú verið haldin næstum 30 sinnum. Í byrjun var þetta lítil sæt hátíð þar sem alkóhólistar í bata og
aðstandendur þeirra komu saman, en sl. ár hefur hátíðin orðið valkostur fyrir alla þá sem vilja njóta alvöru útihátíðar í edrú umhverfi.
Hátíðin er nú haldin í þriðja sinn að Laugalandi í Holtum. Laugaland er 93 km frá Reykjavík en beygt er til vinstri af þjóðveginum rétt áður en komið er að Hellu.
Dagskráin í ár er glæsileg. Hún miðar að því að gera eitthvað fyrir alla, börn, konur og kalla. Á morgnana er yoga, hugleiðsla, indjánadans og zúmba, á daginn eru íþróttamót, kraftakeppni, barnaleiksýning frá Leikhópnum Lottu, barnaball og söngkeppni barna og á kvöldin eru svo tónleikar en í ár koma hljómsveitirnar Dimma, Mammút, Sniglabandið og Sísý Ey Acoustic fram ásamt KK og Magga Eiríks, Benna Hemm Hemm, Markúsi Bjarnasyni, Kristjáni Hrannari og Nínu Salvarar og Helga Val Ásgeirssyni. Grínistarnir Edda Björgvins og Þorsteinn Guðmundsson koma einnig fram.
Hægt er að sjá nánari dagskrá hér.
Boðið verður upp á morgunmat, hádegismat og kvöldmat á góðu verði á laugardag og sunnudag.
Miðaverð á hátíðina alla er 6000 krónur, 1.-4. ágúst. Dagpassar kosta 2500 krónur og frítt er fyrir börn 14 ára og yngri.