Á vef ruv.is birtist forvitnileg grein þar sem söngkonan Marianne Faithful segir frá hvernig dauði Jim Morrison bar að garði eða allavegana hennar upplifun á nóttinni örlagaríku þegar Jim Morrisson kvaddi þennan heim.
Breska söngkonan Marianne Faithfull segist í viðtali við breska tónlistartímaritið Mojo vita með hvaða hætti dauða Jims Morrisons, söngvara hljómsveitarinnar The Doors, bar að.
Í viðtalinu greinir söngkonan frá því að sumarið 1971 hafi hún ferðast til Parísar með Jean de Breiteuil, þáverandi kærasta sínum. Breiteuil var heróínfíkill sem sá öðrum fíklum fyrir eiturlyfjum.
Jim vantaði efni
Fljótlega eftir að þau komu til Parísar segir Marianne Faithfull að Breiteuil hafi sagt þurfa að fara að hitta Jim Morrison. Hún segist hafa fengið hugboð um að eitthvað slæmt ætti eftir að gerast. Hún varð því eftir á hótelherbergi þeirra og tók nokkrar róandi.
„Hann fór og hitti Jim Morrison og drap hann,“ segir söngkonan í viðtalinu. Hún segist þó vera viss um að það hafi verið fyrir slysni. Efnið sem Breiteuil lét Morrison hafa hafi einfaldlega verið of sterkt til að hann þyldi það. Hún bætir því við að hvorki sé hægt að afsanna þessa kenningu sína eða sanna hana. Allir sem tengdust dauða Jims Morrisons séu fallnir frá, nema hún.
Flúði til Marokkós
Í ævisögu sinni fjallar Marianne Faithfull einnig um aðdraganda þess að Jim Morrison lést á hótelherbergi í París. Þar segist henni svo frá að Pamela, sambýliskona söngvarans, hafi hringt. Jean de Breiteuil hafi rokið af stað og sagst ætla að koma aftur nokkrum klukkustundum síðar. Þegar hann sneri aftur var komið fram á nótt. Hann var í illu skapi og gekk í skrokk á henni.
Að barsmíðunum loknum kveikti Breiteuil sér í sígarettu og hún spurði hvers vegna svo illa lægi á honum. Hann svaraði með því að skipa henni að pakka niður föggum sínum. Þau væru að fara til Marokkó, þar sem hann ætlaði að kynna hana fyrir móður sinni. Marianne Fatihfull segir að Breiteuil hafi ekkert viljað segja um hvað gerðist hjá Jim Morrison, en ekki hafi farið á milli mála að hann var dauðhræddur. Efnið sem hann seldi söngvaranum hafi greinilega verið of sterkt og hann því tekið of stóran skammt. Litli dópsalinn hafi greinilega verið í vondum málum.
Af auðmannaættum
Jean de Breiteuil var sonur Charles de Breiteuil markgreifa, auðmanns sem átti mörg dagblöð í Norður Afríku. Fullyrt hefur verið að sonurinn hafi vegna góðra tengsla getað smyglað eiturlyfjum frá Afríku um sendiráð Marokkós í París. Einnig hafi hann getað notað tengsl sín við franska stjórnarerindreka til að smygla eiturefnum til Bandaríkjanna.
Jean de Breiteuil lést í Marokkó í Tangier í Marokkó nokkrum mánuðum eftir að Jim Morrison féll frá. Hann varð 22 ára.
Söngferill í 50 ár
Marianne Faithfull er orðin 67 ára og syngur enn. Hún sendir í næsta mánuði frá sér hljómplötuna Give My Love To London í tilefni þess að 50 ár eru á þessu ári frá því að söngverill hennar hófst með útgáfu lagsins As Tears Go By. Nýju plötunni fylgir söngkonan eftir með hljómleikaferð í október. Mánuði síðar kemur út bókin Marianne Faithfull – A Life On Record, sem söngkonan skrifar með rithöfundinum Salman Rushdie.