Rás 2 sendir út Rokkjötna í beinni frá Vodafone-höllinni þann 27. september næstkomandi. Nú hefur tímaplanið verið gefið út og það er vægast sagt vígalegt, en bein útsending á Rás 2 hefst á tónleikum Brain Police kl. 19.25.
16.00–16.35 MELRAKKAR
16.50–17.25 IN MEMORIAM
17.40–18.15 STRIGASKÓR NR. 42
18.30–19.10 BENEATH
19.25–20.15 BRAIN POLICE
20.30–21.30 SÓLSTAFIR
21.45–22.45 DIMMA
23.00–00.00 SKÁLMÖLD
Hér gefur að líta rjómann sem flýtur ofan á íslensku þungarokkssenunni. Hafi einhver talað um að rokkið væri dautt þá á það svo sannarlega ekki við um Ísland. Þannig gáfu Strigaskór nr. 42 út langþráða plötu sína Armadillo fyrir réttu ári síðan, níðþungarokkararnir í Beneath sendu frá sér meistaraverkið The Barren Throne í apríl á þessu ári, Dimma gerði allt vitlaust með Vélráðum sínum í október og Sólstafir eru hreinlega að breyta tónlistarsögunni með útgáfu á Óttu sem trónir nú á toppi sölulista um allt land, sem og víðar um heim. Skálmöld hyggur síðan á útgáfu á nýrri plötu, Með vættum, í október og Brain Police hefja árið 2015 með útgáfu á nýrri breiðskífu.
Rokkjötnar leggja áherslu á að gera íslensku þungarokki hátt undir höfði og hefur að leiðarljósi að sem allra flestir geti notið. Þannig er miðaverði stillt í hóf og fólk sem ekki hefur náð 18 ára aldri er velkomið með forráðamönnum. Þessu er svo pakkað inn í glæsilega umgjörð, risasvið, og kraftmesta tækjakost sem völ er á. Rokkjötnar vilja sjá íslenskt þungarokk vaxa og dafna enn frekar og eiga þá ósk heitasta að sem flestir taki þátt í þeirri uppbyggingu.
Sem fyrr segir verða herlegheitin haldin í Vodafone-höllinni laugardaginn 27. september og opnar húsið klukkan 15.00. Miðaverð er aðeins 5.990 krónur og er miðasalan í fullum gangi hér.