Tónlistarhátíðin All Tommorow´s Parties var haldin í annað sinn á Asbrú dagana 10 – 12 júlí síðastliðinn. Hátíðin var fyrst haldin 1999 í Bretlandi og var það hljómsveitin Belle & Sebastian sem valdi dagskránna en það ku vera siður að listamenn velji sína uppáhalds listamenn til að spila á hátíðinni. Frá 2002 hefur hátíðin flakkað út fyrir landsteina Bretlands og í fyrra var komið að Íslandi að halda sitt partí.
Ásbrú er tilvalinn staður fyrir hátíð eins og ATP þar sem ATP hefur leitast við að vera á „öðruvísi“ stöðum og gömul herstöð því hentugur staður. Á Ásbrú var boðið upp á tvö tónleikasvið, DJ tjald og bíó. Aðal sviðið kallast Atlantic Studios en það er gamalt flugskýli sem virkaði svona rosalega vel sem tónleikasalur. Andrews Theater bauð upp á hitt sviðið og sæti og voru því tónleikarnir þar, sitjandi tónleikar. Kvikmyndasýniningar voru svo haldnar í Keili en það var hljómsveitin Portishead sem valdi þær myndir sem sýndar voru. Dj tjaldið var svo staðsett fyrir utan Atlantic Studios.
Dagskráin á ATP 2014 var hreint út sagt frábær. Stóru erlendu nöfnin voru Portishead, Interpol, Mogwai, Shellac, Kurt Vile, Slowdive og Devendra Banhart ásamt fleirum kanónum í bland við ljúffengum rjóma úr íslensku senunni.
Að öllum öðrum ólöstuðum þá má segja að Portishead hafi átt þessa hátíð skuldlaust með þvílíkt flottri framkomu þar sem öll skynfærin fengu vænan skammt af upplifun. Ekki var það nóg fyrir Portishead að framkalla tónlistargaldur á sviðinu sem fékk hárin til að rísa heldur var myndræn vinnsla sveitarinnar og „video“ verkin sem vörpuð voru á tjald fyrir ofan sviðið algjörlega til fyrirmyndar og gaf tónlistinni miklu meira gildi fyrir vikið.
Rokkarinn í mér var afar kátur þegar Shellac mætti á sviðið með Steve Albini í broddi fylkingar. Shellac sýndi það og sannaði að hljómsveitin hefur ekkert dalað síðan ég sá þá á mögnuðum tónleikum þeirra á Gauknum árið 1999. Ef eitthvað er þá voru þeir bara betri á ATP.
Aðrir íslandsvinir, Mogwai áttu líka magnaða frammistöðu á ATP og sýndu enn og aftur hversu öflugir þeir eru. Það hefði ekki verið hægt að bora í gegnum hljóðmúrinn sem þeir byggðu upp á köflum. Ein skemmtilegasta uppákoma á hátíðinni þetta árið var þegar Mogwai hægt og rólega leyfðu kafla í einu laga sinna að fjara út þannig að sumir tónleikagestir í kringum mig héldu að þeir væru búnir að spila en eins og þruma úr heiðskíru lofti dúndraði sveitin laginu aftur í gang á þvílíkum hljóðstyrk rétt eins og þeir væru að gefa tónleikagestum kjaftshögg. Tónleikagestir hrukku í kút og af skelfingarsvip sumra að dæma má segja að þetta hafi verið frekar óþægileg upplifun og örugglega það sem Mogwai menn voru að reyna að kalla fram.
Kurt Vile átti ágætis spretti en hann spilaði bara alltof lengi. Flottur músíkant með gott band með sér en var orðinn frekar þreyttur í lokin.
Interpol eiga marga aðdáendur hér á klakanum og undirritaður er ekki undanskilinn. Það var því ákveðin munaður að fá að upplifa bandið hérna heima á klakanum. Paul Banks og félagar voru helvíti flottir og skiluðu sínu og vel það. Það verður gaman að heyra nýju plötuna þeirra sem kemur út í haust.
Það er alveg ljóst að ATP á fullt erindi hér ár hvert og það verður spennandi að fylgjast með hvað skipuleggjendur munu bera á borð á næsta ári. Ef dagskráin í ár er einhver fyrirboði fyrir því sem koma skal þá geta tónlistarunnendur byrjað að hlakka til næsta árs.
Paunkholm
Myndir – Fimmtudagur
Myndir – Föstudagur
Myndir – Laugardagur