Frá evróputúr Skálmaldar 2013 með Finntroll og Týr.
Og ein hugleiðing að lokum: Ísland er konungur baðherbergjanna, það segi ég og skrifa. Það sem ég hlakka til að koma inn á klósett sem er ekki angandi af klóaki og mannaskít, setjast á klósettskál sem er ekki með þessum óskiljanlega stalli eða jafnvel ekki nema gat í gólfinu, geta sturtað niður þegar maður er búinn, fara í sturtu sem heldur hitastillingu en frystir mann ekki og skaðbrennir til skiptis, stíga undir bunu sem fellur á mann allan af þunga, ekki undir þessa örfáu dropa sem sullast á mann eins og hundaslef, geta hengt sturtuhausinn upp og horfa á svelginn taka við affallinu jafnóðum. Og hverjum dettur í hug að hafa einn kaldan krana og einn heitan í handlauginni? Og hálfan metra á milli! Ég er ekki þrifalegur maður en óskaplega sem þetta spilar stóra rullu, það finnur maður þegar hlutirnir eru ekki í lagi. Og að drekka vatnið úr krananum, þess sakna ég mest af öllu.
Frídagur og svo ekki nema sjö dagar eftir. Það er ótrúlegt.