Það er töluvert síðan Hallur Ingólfsson fór að gera tónlist. Eftir að hafa samið tónlist fyrir leikverk á sviði, kvikmyndir, dansverk, sjónvarpsþætti og annað myndrænt efni, hefur Hallur Ingólfsson einnig gert garðinn frægan í íslensku þungarokkssenunni með hljómsveitum á borð við XIII og Skepna.
“Öræfi” er önnur sólóplata Halls og fylgir eftir plötu hans “Disaster Songs” frá árinu 2009. “Öræfi” býður upp á ögn flóknari hljóðheim og innsýn inn í heim Halls Ingólfssonar sem tónsmiður og efnið er nú alveg án söngs í frammi.
Kaldalón Hörpu varð fyrir valinu sem tónleikastaður annarra tónleika “Öræfa”. Hallur naut þar liðsinnis félaga síns úr Skepnu, Harðar I. Stefánssonar, á bassa, Jóhanns Ingavasonar á hljómborð og Halldórs Lárussonar á trommur. Hallur sá þá um gítarleik og stjórnun.
Hallur gekk öruggur á svið ásamt aðstoðarmönnum sínum og þakkaði gestum sínum fyrir komuna á vingjarnlegan og hógværan hátt. Tilfinningin var líkt og hér væri um opna hljómsveitaræfingu að ræða og aðeins nokkrir heppnir einstaklingar hefðu hér fengið tækifærið til að upplifa eitthvað stórkoslegt. Margir meira spenntir en aðrir en gestir kvöldsins virtust fremur til baka til að byrja með.
“Hamrar” var fyrsta lag kvöldsins og á sama tíma hófst myndasýning á flennistórum skjá fyrir aftan sveitina. Myndir af klettum, hömrum og öðru landslagi íslenskra öræfa og hálendis og gaf aukin byr undir áhrif tónlistarinnar.
Sterkasta lag kvöldsins var án efa lagið “Eyði” og gæsahúðin nær sprengdi sig í gegnum klæði. Epískt og þungt með drífandi hljóm og vott af einhverju sem gæti kallast klassískt íslenskt eyðimerkur sækadelíu rokk (?). Samt eitthvað öðruvísi en það virkaði virkilega vel!
Á lagalista kvöldsins voru öll lög “Öræfa” og fyrir utan nokkra hiksta hér og sveif hljómsveitin vel yfir vötnum. Áhorfendur hefur mátt sýna aukinn áhuga fyrri part kvölds og myndefnið hefði mátt kveikja betur undir gestum en allt í öllu var þetta frábært kvöld í Kaldalóni. Undursamlegt ferðalag um áhrifagjarna náttúru, innvolfs okkar allra, fegurð og hrylling, eyði og fjöll. Hallur leiddi sveit sína með öryggi um hinar ýmsu víddir og flóknir taktar sem leiknir voru af einstakri snilld, þrumuknúinn bassi og samspil gítars og hljómborða, skilaði af sér einstakri upplifun í Kaldalóni.
Eftir um klukkustund af tónlist þakkaði Hallur gestum sínum en ákvað þó að leika upphafslag tónleikanna, “Hamrar” á ný. Taka tvö var einstaklega vel heppnuð og nú loksins virtust áhorfendur taka vel við sér og hljómsveitin skildi þá eftir ánægða en þó; hungraða í meira. Besta blandan.
Daníel Hjálmtýsson