From the blog

From the blog

Hátíð í Hafnarfirði

mynd: gaflari.is

Tónlistarhátíðin Heima í Hafnarfirði er hluti af hátíðinni Björtum dögum sem haldnir voru seinni partinn í apríl. Heima í Hafnarfirði var haldið á fyrsta kvöldi hátíðarinnar, 23. apríl sem einnig var síðasti dagur vetrar.

Tónleikarnir voru haldnir í heimahúsum á ýmsum stöðum í bænum. Hver hljómsveit spilaði tvo tónleika um kvöldið í sitt hvoru húsinu. Tónleikarnir voru um 40 mínútur að lengd og byrjuðu nýjir tónleikar á klukkutíma fresti.

Alls voru það 13 heimili miðsvæðis í Hafnarfirði sem höfðu opnað dyr sínar fyrir öllum þeim sem höfðu áhuga á að koma og hlusta á þá listamenn sem tóku þátt í þessari áhugaverðu uppákomu.

Dagskráin byrjaði klukkan 19:50 þegar Fjallabræður settu hátíðina á einstaklega skemmtilegan hátt af svölum eins þeirra húsa sem tóku þátt í hátíðarhöldunum. Eftir það gátu hátíðargestir valið sér tónleika til að fara á og rölt þangað þar sem þeir voru haldnir.

Tónleikadagskráinni lauk svo klukkan 23 en þá stóð til boða að fara á ball á Fjörukránni og í Graflaraleikhúsinu. Á Fjörukránni komu Kátir Piltar aftur saman og skemmtu fólkinu en í Graflaraleikhúsinu var opinn míkrófónn fyrir Hall Joensen og alla þá sem til voru í smá söng og glens.

Það voru 12 listamenn og hljómsveitir sem komu fram á Heima þetta árið og voru þau alls ekki af verri toganum. Þar á meðal má nefna Fjallabræður, Vök (sigurvegara Músíktilrauna 2013), Ylja, Hall Joensen og Jónas Sigurðsson.

Ása Ester