Laugardagurinn byrjaði snemma á Kex Hostel en þar var von á pönki í fésið. Hinir alíslensku Pink Street Boys áttu að koma fram í beinni útsendingu á útvarpsstöðinni bandarísku, KEXP.
Þar var frekar fámennt á gistiheimilinu vinsæla þetta hádegið og mátti gera ráð fyrir því að gestir hátíðarinnar væru flestir sofandi og safnandi kröftum fyrir næstseinasta kvöld hátíðarinnar að þessu sinni. Þó bættist við áhorfendaskarann þegar Pink Street Boys mættu á sviðið og virtust fremur þreytulegir þegar Cheryl Waters, plötusnúður og kynnir á KEXP, kynnti hljómsveitina inn. Heiðskír himinn, sólskin, kaffibolli og Pink Street Boys. Ágætis byrjun á laugardegi. Sveitin lék, af sinni alkunnu snilld, pönk rokk af gamla skólanum og kveiktu í afturenda gesta sinna og vöktu án efa sofandi gesti Kex með sæmd. Góðan daginn.
Krafturinn var klár og þreytan engin þegar líða tók á settið hjá PSB og öryggið var uppmálað. Töffarabragur sveif yfir vötnum og virtist sveitinni skítt sama um álit eða upplifun annarra en þeirra eigin. Sem er gott. Gott laugardagskaffi með sannkölluðu pönki í fésið. Fokk it. Skítsama. Eins og PSB einum er lagið.
Leiðin lá næst í meira kaffi og röltið var mun betra en kvöldinu áður. Veðrið var fallegt og hægt og rólega fór Laugavegurinn nú að fyllast af fólki. Bæði gestum hátíðarinnar og hefðbundnu fjölskyldufólki á leið í Kolaportið, heimsóknir eða eitthvað annað huggulegt. Þar sem afboðun á þeim listamanni sem ég kaus mér að sjá var staðreynd varð Dillon og tónleikar Kanadamannsins, Glass Apple Bonzai, raunin. Glass Apple Bonzai lék danstónlist með vott af Ian Curtis söngli og virkaði það vel á hálf lúna gestina. Gamanmál inni á milli laga og meðvitiuð klúður gáfu þessu öllu saman gildi. Bros og rólegheit en þó skorti eitthvað heillandi.
Bíó Paradís var einn af utandagskrártónleikastöðum (langt orð) þetta árið og þótti við hæfi að líta inn í kaffibolla seinnipartinn. Uppsetningin var góð og virkaði rýmið sem bæði tónleikastaður og kaffihús og er góð viðbót við utandagskrártónleikastaði Iceland Airwaves.
Millitímaráfið endaði aftur á Dillon en þar var íslenska bandið Godchilla í fullu fjöri. Þungir og melódískir höfðu Godchilla nú fyllt efri hæð staðarins og talaði annar hver maður nú um eyðimerkurrokkarana í Brain Police, sem væntanlegir voru á svið á eftir Kælunni miklu sem léku einnig gott sett fyrir gesti sem reyndu nú sitt besta að finna grúvið sitt aftur og skemmta sér. Stemmingin var góð og vingjarnleg og nú var von á einni stærstu rokksveit Íslands, Brain Police, á svið. Fátt er þá betra en að rekast á mikinn aðdáenda sem býr erlendis og var til þess eins mættur að sjá sveitina vefja gestum Dillon um fingur sér. Þó, eins og áður yfir hátíðardagana, sigruðu gestir húsrýmið og varð á tímabili óþægilegt að standa í fjöldanum. Eftir tvö lög var leiðinni haldið í arma unnustunnar á næsta bar. Rólegheit og endurnýjun battería. Algjör nauðsyn.
Gamla bíó var hálf tómlegt þegar klukkan var að skríða í hálf níu. Hugsanlega var að myndast ein stærsta biðröð hátíðarinnar í Hörpu en á svið Gamla bíó ætluðu Low Roar.
Hægt og bítandi bættist í hópinn en furðulegt var að sjá ekki troðfullt hús af fólki, miðað við aðsókn á utandagskrártónleika sveitarinnar.
Low Roar stigu á svið ásamt meðlimum amiina og heilsuðu áhorfendum sínum me upphafslagi nýjustu plötu sinni, 0, Breathe In. Svona einskonar andköf fyrir það sem koma skal.
Stemmingin var góð og hljómsveitin hófst vel á flug. Aðstoð amiina við flutning lagana gera þau einstaklega bitastæð og fylling er frábær. Fegurðin í hljóðheimi Low Roar var yfirgnæfandi og áhorfendur virtust verulega hrifnir. Sveitin renndi í efni af 0 og gestir tóku að hella aðeins í sig. Tilfinningaþrungin tónlistin og lágstemmd lög inni á milli settu bitursætan svip á settið og margir vissu ekki hvort fella ætti tár, reyna að dilla sér eða faðma manneskjuna við hlið sér. Tónleikarnir enduðu svo á laginu Dreamer af áðurnefndri plötu og kvaddi sveitin hátíðina að þessu sinni. Low Roar fengu þá verðskuldaða hvíld í um tvo daga áður en þeir héldu svo á vit nýrra ævintýra í Evrópu miðvikudeginum eftir.
Dagurinn hafði verið ákaflega upp og niður, tónlistarlega séð, hingað til. Upp og niður þá í tilfinningalegri meiningu. Pönk í fésið, broslegur hressleiki, ruddalegt þungarokk, afslöppun með unnustu, tilfinningarússíbani Low Roar og allskonar fyrir allskonar fólk hvaðanæva að. Þó spillir ögn fyrir þegar fólk hemur sig ekki í samtali á tónleikum og virðast sumir ekki ná því að það sé dónaskapur. Það er gaman að fá sér, það er gaman að sjá tónleika og það er hollt og gott að spjalla saman en tónlistarmönnum á sviði og unnendum í sal á tónleikum finnst ekkert gaman að hlusta á samræður um dægradvöl ókunnra á háa c-inu úti í sal. Sorrý. Uss!
Hvernig ætli röðin sé í Hörpunni núna? Best að rölta niður eftir.
Daníel Hjálmtýsson