„Ætlar enginn að stoppa, eða?“ ómar í eyrum mér á fjórtán tungumálum þegar ég reyni eftir besta megni að komast yfir götuna frá Hörpu og í átt að 12 tónum á opnunardegi Iceland Airwaves 2014. Samræður um hugsanlega byggingu göngubrúr eða undirganga að og frá Hörpu, eiga án efa eftir að eiga stað á nokkrum tungum yfir komandi daga. Arnarhóllinn var þó fagur að sjá og veitti fullt tungl huggulegan blæ, hundruðir innlendra sem erlenda tónlistarunnenda, ljósadýrð Hörpunnar og yfirgnæfandi spenna.
Klukkan var að ganga fimm. Leiðin lá upp Laugaveg, þar sem stemmingin var góð og höfðu nú ansi margir tekið ástfóstri við utandagskrártónleika hátíðarinnar og var hvert kaffihús, bókabúð, fataverslun og bar, smekkfullt af fólki með tilheyrandi gluggamóðu og bjórþambi.
12 tónar urðu fyrsta stoppið þetta árið en íslensk-ameríska sveitin, Low Roar, átti að stíga þar á svið. Stoppið varð stutt. Í raun ekkert. Móðan á rúðunum gaf til kynna troðfullt hús og áhugasamir biðu í hundrað metra röð fyrir utan. Bárust ljúfir tónar Ryan Karazija og félaga niður Skólavörðustíginn og fylgdu undirrituðum á vit nýrra ævintýra. Kaffibarinn varð næsta stopp en þar áttu tónleikar Nicholas Brittain að fara fram. Eftir að klukkan fór fram úr auglýstum tíma Brittain kom í ljós að tónleikunum hefði verið aflýst. Hélt því leitin áfram.
Börn settu þá hátíðina formlega fyrir undirritaðan. Húrra var staðurinn og léku Börn íslenskt pönk af gamla skólanum á einfaldan en áhrifaríkan hátt. Gestir dilluðu sér með og sötruðu veigar og þegar um var litið mætti halda að þetta væri upptökur á hinni klassísku, Rokk í Reykjavík. Svo var þó ekki og skiluðu Börn af sér þéttu og tilfinningaríku setti og söngkona þeirra batt allt vel saman. Pönk af bestu gerð og frumburður þeirra er víst frábær.
Pönkið virðist vera á ákveðinni uppleið hér á landi, eftir nokkurn dvala úr sviðsljósinu og var því ekki úr vegi að líta á efri hæð hússins, Gaukinn og sjá þar Kælan mikla. Þar sem tónleikar Barna og Kælunnar fóru fram á sama tíma voru aðeins um tíu mínútur eftir af tónleikum Kælunnar þegar undirritaður mætti á svæðið. Gæsahúðin gerði vart við sig í fyrsta sinn á Iceland Airwaves 2014 og ljóðrænt, svífandi og aðlaðandi pönk hreif með sér gesti Gauksins. Bassaleikari sveitarinnar sá til þess að öskra úr sér lungun á meðan aðalsöngkona sveitarinnar kyrjaði um misheppilegt ástand fyrri tíma. Gaukurinn tók nýverið breytingum og tekur nú við mun stærri hóp en áður og virtust Kælan mikla ekki eiga í neinum erfiðleikum að halda fólki við efnið. Hljómsveit til að fylgjast með.
Það var farið að hvessa dálítið þegar haldið var í Hörpu. „Bjórbílar“ troðfylltu bílastæði Kolaportsins og gestir flykktust hnitmiðað að stóra húsinu með fallegu ljósin. Lútandi höfði gegn veðri og vindum, mætti halda okkur uppvakninga í leit að æti. Þó gekk töluvert betur að koma sér yfir götuna að þessu sinni. Harpa var í fullum skrúða og settu varningsbásar, upplýstir bjórkælar, fallega skreytt kaffihúsið og vingjarnlegt starfsfólk allt í góðan graut. Hátíðin var svo sannarlega byrjuð.
Íslenska sveitin 1860 ákvað að koma einungis fram á sviði Silfurbergs í Hörpu þessa hátíðina. Ákvörðun sem sumum gæti fundist erfitt að skilja enda hljómsveit sem á sér sterkan og mikinn aðdáendahóp hér á landi og er vel spilandi. Ákvörðunin reyndist þó skila einum skemmtilegustu tónleikum sem undirritaður hefur orðið vitni af með sveitinni. Léku þá bassaleikinn, Gunnar Jónsson og söngvarinn Hlynur Hallgrímsson á alls oddi og göntuðust með áhorfendum, töluðu bjagaða ensku með skondnum innskotum, gerðu gys að sjáfum sér og lofuðu krist. Frábærri tengingu við áhorfendur náð strax í upphafi. Viðurkenndi sveitin furðu sína á nærri fullum sal og jók það á hlýjuna frá áhorfendum. Hér varð að veruleika stórt og poppað, krúttað ef svo má segja, stofupartý með fullt af ókunnugu fólki frá öllum hornum heimsins. 1860 eru einstaklega vel spilandi og þéttir, þó þeir viti stundum ekki hvar hljóðfærin sín eru niður komin en ef leitað er að frumlegastu hljómsveit Íslands er hér ekki um auðugan garð að gresja. Spilagleðin og formúlur ganga hér allar upp en hver er svo sem frumlegur á Íslandi í dag?
Daníel Hjálmtýsson