From the blog

From the blog

Iceland Airwaves 2014 – Miðvikudagur: Seinni hluti

Airwaves 14

Sigurlaug Gísladóttir, Mr.Silla eða einfaldlega Silla, var næst í röðinni á eftir hinum vinalegu 1860. Silla kom fyrst fram á Iceland Airwaves, undir merkjum Mr.Silla, árið 2005 en kom auk þess fram sem Mr. Silla & Mongoose nokkru síðar. Ásamt því að vinna að eigin efni er Silla einnig þekkt fyrir störf sín í íslensku hljómsveitinni múm, syngjandi og spilandi við hlið Snorra Helgasonar en einnig hefur Silla starfað með hljómsveitum á borð við Low Roar, Cheek Mountain Thief og Boogie Trouble, svo eitthvað sé nefnt.

Það var þá vel þétt í Silfurbergi þegar Silla steig á svið. Böðuð þokukenndri og þungri birtu í annars svarta myrkri, stóð Silla ein og óstudd fyrir framan fjöldann. Með tölvu og rafmagnsgítar sér við hlið lék hún við hvern sinn fingur og flutti efni af tilvonandi plötu sinni (sem væntanleg er á næsta ári). Einstaklega tregafullt sett sem bæði hrærði og nærði en Silla hefur sjálf lýst plötunni sem einskonar úrvinnslu úr sorg og kemur hún því einstaklega vel og hreint til skila. Salurinn hreifst með og úr varð eitthvað sem situr með manni um hríð. Eitthvað ofboðslega fallegt. Silla bauð svo vin sinn velkominn á sviðið til sín og aðstoðaði hann við flutning nokkurra laga. Plötu hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu og virðist Silla nú tilbúin í heimsyfirráð, ein og óstudd en stundum með góðan vin sér við hlið.

Benny Crespo´s Gang voru að klára sína tónleika í Norðurljósum þegar klukkan var að skríða í hálf tíu. Gengið er fyrir löngu búið að festa sig í sessi sem eitt áhugaverðasta rokkband Íslands en hefur þó á undanförnum árum ekki verið eins sýnileg og áður. Þó er gengið að reyna að breyta úr og virðast nú vera að koma sterkt aftur inn á markaðinn.
Norðurljós virtist ekki meðtaka hljóm Benny Crespo´s Gang voðalega vel en eitthvað var ábótavant. Þó keyrði gengið vel með flutning sínum á smáskífunni Night Time en tengingin við gesti Norðurljósa hefði mátt vera meiri.

Eftir að hafa hríslast um af gæsahúð og nær votum augum hjá Mr. Silla og dillað sér með Benny Crespo´s Gang, var ákveðið að halda í Gamla bíó og líta þar á íslensku Agent Fresco og nýja og endurbætta salinn í Gamla bíó. Ekki nóg með að hljómsveitin var spennandi heldur var undirritaður einna mest spenntur að sjá hvernig allt saman leit út innan veggja Gamla bíós.
Á Iceland Airwaves eru stundum biðraðir. Stundum. Oftast? Er það ekki skiljanlegt, eða hvað? Þetta kvöldið var biðröðin inn í nýja Gamla bíó svo löng að undirritaður hafði það ekki í sér að skilja við erlendan vin og fara inn aðra leið. Tók því Íslenski barinn vel á móti okkur og supum við pilsner og kaffi á meðan við furðuðum okkur á röðinni hinum megin við götuna. Virtumst við ekki þeir einu sem höfðu ákveðið að fá sér smá pásu en gífurlegt magn fólks sótti staðinn og enn fleiri versluðu sér smá nesti í röðina. Undirritaður skellti í sig pilsnerinum og hélt aftur niður í Hörpu. Hugmyndin var að líta Ásgeir (Trausta) augum á sviði í fyrsta sinn en svo reyndist alls ekki raunin. Þegar stigið var inn í Hörpu mætti manni mannmergð ofan á mannmergð og raðir höfðu myndast fyrir framan alla sali. Svo mikil röð reyndar, fyrir Silfurberg og Norðurljós að leysa varð úr því daginn eftir og nýju skipulagi komið á legg. Reyndi ég þá að fylgja félaga mínum á Árna í öðru veldi en heppnin var ekki með okkur þar heldur, nema ef ég hefði skilið félagann eftir einan frammi og farið inn sjálfur? Nýttum við þá tímann í að spjalla við vini og kunningja en gestir voru þó hressir og bjartsýnir á komandi helgi. Neikvæðnin átti ekki eftir að reynast það mælanleg þessa helgina og var því gott að enda þetta á faðmlögum og vinahittingum í hlýrri Hörpu og taka síðasta vagn heim á leið. Félaginn var nú kominn með dömu upp á arminn og hátíðin var bara rétt að byrja.

Daníel Hjálmtýsson