Fyrir stuttu ákvað hópur vina úr íslensku rokksenunni að koma sama og heiðra frumburð einnar stærstu málmsveitar veraldar: Metallica., “Kill ´Em All” fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári en platan var án efa einn mesti brautryðjandi thrash málms á 9.áratug síðustu aldar.
Það eitt að láta sér detta í hug að flytja þessa plötu í heild á tónleikum sýnir fram á mikið hugrekki og kallar á töluverða hæfileika, þor og miklar hreðjar. Melrakkar virðast eiga nóg til af slíku. Hljómsveitin samanstendur af einstaklingum úr fjölbreyttum hornum þungarokksenu Íslands og eru það þeir Aðalbjörn Tryggvason úr Sólstöfum, Bjarni M. Sigurðarson og Björn Stefánsson úr Mínus, Flosi Þorgeirsson úr Ham og Snæbjörn Ragnarsson úr Skálmöld sem brugðu sér í hlutverk Metallica.
Opnunaratriði kvöldsins var hin alíslenska Skepna. Þétt og taktfast þungarokk með íslenskum textum og með keim af eyðimörkinni sem kveikti vel í gestum kvöldsins og sá til þess að fólk kýldi vel í sig af öli og gerði sig reiðubúið fyrir málm í óæðri endann (ef svo má að orði komast).
Melrakkar hikuðu ekki við að sparka þétt og fast í rassgatið á sínum gestum og virtust verulega æfðir, öruggir og jákvæðir. Kvöldið hófst fyrir alvöru þegar Aðalbjörn (Addi) öskraði upphafssetningar opnunarlags plötunnar, “Hit The Lights” og Melrakkar tóku á rás. Gítarar vel þandir orku og ruddalegir, bassinn öskrandi þungur og trommur af hæsta klassa. Til að gera allt enn betra var söngur góður og einblínt var á heiðurinn fremur en hermirinn.
Hljómsveitin lék líkt og smurð vél og hélt gestum sínum vel við efnið. Veislusalur kvöldsins hefur þá sjaldan verið eins troðinn af æstum tónleikagestum en þó, virtist allt vera jákvætt, vingjarnlegt og gott innan sem utan veggja staðarins. Reiðin og angist tónlistarinnar smitaði gesti sína ekki, heldur batt þá föstum vinaböndum og sá til þess að öllum liði vel.
Útgáfur Melrakka á klassískum slögurum á borð við “The Four Horsemen”, “Seek & Destroy”, “No Remorse” og “Whiplash” voru nær óaðfinnanlegar og ljúft var að heyra lög á borð við “(Anesthesia) – Pulling Teeth” og “Metal Militia” í flutningi þessara hæfileikaríku einstaklinga sem sýndu það og sönnuðu að vel er hægt að flytja slíkar plötur og ganga stoltur af velli.
Melrakkar létu sig hverfa eftir að hafa klárað frumburðinn. Það leið þó ekki á löngu þar til þeir sneru aftur á svið og þökkuðu gestum sínum, fjölskyldum og vinum með samansafni af ábreiðum af Judas Priest, Motörhead og Metallica. Gestir kvöldsins, kófsveittir og raddlausir, þökkuðu enn fremur fyrir sig með því að taka vel undir og þeyta flösu fram á nótt með Melrökkum.
Frábært framtak og meira af þessu, takk!
Daníel Hjálmtýsson