From the blog

From the blog

Neil Young & Crazy Horse í Höllinni

neilyoung. 640x400

Það var eins og sólarguðinn hefði ákveðið að blessa þjóðargersemi Kanada með nærveru sinni þegar Laugardalshöllin opnaði hurðir sínar fyrir aðsvífandi tónleikagestum þetta kvöldið. Eftir nokkuð blauta og hvassa viku var það kærkomið að setja upp sólgleraugun og mæta á rokktónleika með Neil Young & Crazy Horse en þessir tónleikar voru opnunar atriðið fyrir All Tomorrows Parties tónlistarhátíðina sem hefst formlega síðar í vikunni á Ásbrú.

Íslandssonurinn Mugison reið á vaðið klukkan átta, vopnaður gítarnum sínum og lék nokkur lög. Tvö af þessum lögum voru nýsmíði frá drengnum og ekki var annað að heyra en að von sé á flottu efni frá stráksa. Rúna Ezradóttir eða frúin eins og ég heyrði hana nefnda af nálægum tónleikagesti aðstoðaði mann sinn við flutning og saman göldruðu þau fram einlæga stund þó spilatíminn væri heldur stuttur eða um 20 mínútur.

Þetta voru fjórðu Neil Young tónleikarnir sem ég hef sótt og líklega þeir einu sem ég mun upplifa á heimaslóðum. Það skiptir samt litlu máli því hann virðist gefa sig allan fram hvar sem hann kemur fram og í Laugardalshöllinninni var engin breyting þar á. Fjórar mínútur yfir auglýstan tíma var stjarnan kominn í gítarsóló sem stóð yfir í tíu mínútur í laginu Love And Only Love og setti tóninn fyrir kvöldið. Það er magnað að hugsa til þess þegar horft er á Neil Young spranga um sviðið, látandi gítarinn væla og alveg að detta í sjötugt að máltækið aldur er afstæður fær allt í einu sannfærandi meiningu.

Þegar Neil byrjaði að syngja þá small allt saman, röddin hefur ekkert breyst og virkaði sem tímavél fyrir marga í salnum þetta kvöldið, árið var ekki lengur 2014, heldur það ár sem að lögin sem flutt voru komu út. Going ´Home, Days That Used To Be, Don´t Cry No Tears, Love To Burn og Seperate Ways færðu því nostalgíu andann yfir salinn.

Það var kominn tími fyrir kassagítarinn og fyrsta lagið í rólega hluta program kvöldsins var Only Love Can Break Your Heart. Kærkomið lag en í kjölfarið fylgdi útgáfa af Dylan slagaranum Blowing In The Wind við mikinn fögnuð viðstaddra. Neil kláraði svo rólegheitin með laginu Heart Of Gold þar sem hann sýndi líka færni sína á munnhörpuna.

Rokkið tók svo aftur við með lögunum Barstool Blues og Psyhedelic Pill þar sem ljósahönnuðir áttu flotta spretti á sínum græjum og færðu gestum 60´s stemmingu beint í æð.

Neil Young sagði fátt við áheyrendur en hann sagði þó að að íslendingar ættu að líta á það sem forréttindi að geta drukkið hreint vatn úr krönum heimila sinna. Sjálfur ferjar hann vatn í flöskum á tónleikaferðum til að vera öruggur með hreint vatn. Hann kom með ákall til að bjarga jörðinni áður en hljómsveitin demdi sér í frumflutning á splunkunýju lagi, Who´s Gonna Stand Up And Save The Earth. Slagarinn, Rocking In The Free world fylgdi fast á eftir og gerði stormandi lukku.

Neil Young og félagar voru klappaðir upp af áhugasömum tónleikagestum hallarinnar sem voru verðlaunaðir með öflugri útgáfu af Like A Hurricne.

Á Neil Young mælikvarða voru tónleikarnir heldur stuttir (14 lög) en það kom þó ekki að sök því karlinn gaf sig allan í flutninginn með dyggri aðstoð Crazy Horse. Sumir kvörtuðu undan því að í prógrammið vantaði fleiri slagara en þegar litið er til þess hversu mikið efni Neil hefur gefið út er óneitanlega ekki hægt að gleðja alla 100%.

Sviðsmyndin var frekar látlaus en flott, sviðið hlaðið mögnurum og öðrum græjum sem nýttust við flutning og Crazy Horse lógóið gnæfði yfir hljómsveitinni á bakvið sviðið. Hljómburður var með ágætum þó svo trommarinn virtist týnast á köflum í hljóðveggnum. Gítarhljómur gömlu kempunnar var hinsvegar svo magnaður að gamlir hippar fengu holdris þegar gítarinn vældi í gegnum hátalarakerfið.

Tónleikar Neil Young & Crazy Horse voru heilt yfir frábær upplifun þó ekki nema bara fyrir þær sakir að sjá 69 ára gamlan mann sýna sér yngri tónlistarmönnum sem margir hverjir voru viðstaddir í salnum hvernig eigi að halda rokktónleika. Skipuleggjendur fá plús í kladdann og nú verður spennandi að sjá hvernig framvindan verður næstu helgi þegar fleiri erlendar stjörnur ásamt glæsilegum íslenskum sveitum setja allt á annan endan á All Tomorrows Parties.

Paunkholm