Femenísk og frábær í fárviðri
Annað árið í röð heggur veðrið stórt skarð í tónlistarhátíð Rauðasands, en það kom ekki í veg fyrir að gestir hátíðarinnar hafi skemmt sér með eindæmum vel. Hátíðin sem til stóð að halda á Rauðasandi, hófst á Patreksfirði þar sem ekki var þorandi að fara á sandinn á fimmtudeginum, en með bjartsýni að vopni voru gestir hátíðarinnar sendir á sandinn á Föstudeginum. Þar áttu gestir hátíðarinnar ógleymalega stund í stórbrotinni nátturufegurð og blíðskaparveðri undir ljúfum tónum. Sveitarómantík eins og hún gerist fallegust, í afskekktri hlöðu á hjara veraldar fyrir opnu úthafi og rauðum sandi.
Sveitarómantíkin sem hafði verið allsráðandi um nóttina fauk að vísu út í veður og vind um morguninn þegar gestir hátíðarinnar voru ræstir upp laugardagsmorguninn við sírenuvæl björgunarsveita, enda hafði veðrið tekið sig upp á ný og var nú komið hávaðarok á svæðinu. Allt lauslegt hafði fokið til hafs, þó margir sváfu enn vært, flestir með tjaldið í andlitinu, þá var ljóst að rýma þurfti svæðið og setja upp flóttamannabúðir á Patreksfirði.
Með jafnaðargeði tóku gestir hátíðarinnar sig upp, pökkuðu því saman sem eftir var af útilegubúnaði þeirra og keyrðu til Patreksfjarðar, þó fæstir hafi sjálfsagt verið ökufærir vegna gleði gærdagsins. Haldið var í félagsheimilið á Patreksfjarðar þar sem Patreksfirðingar tóku vel á móti veðurbörðum borgarbörnum.
Þar sem hátíðin byrjarði, voru lokatónar hennar slegnir, í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði, sem er einn skemmitlegasti tónleikastaður landsins. Var stemmingin slík að eftir auglýsta dagskrá var slegið upp í fjöldasöng og harmónikkuspil í blíðskapar veðri. Þar sungu gestir hátíðarinnar fram undir rauðan morgun og var ekki að sjá þreytu á mönnum eftir átök helgarinnar.
Í flestum tilfellum hefði slíkur veðurofsi, annað árið í röð, gert útaf við hátíðir sem þessa, en það sem gerir hátíðin að því sem hún er, er að á þessari litlu hátíðið á hjara veraldar er saman kominn einstakur hópur gesta, skemmtileg blanda af ólíkum einstaklingum sem njóta þess fyrst og fremst að hafa gaman af lífinu. Hátíðina sækir fámennur en góður hópur, hippa, lattelepjandi listaháskólalið, tónlistarmenn og útlendir puttaferðalangar í sambland við forvitna heimamenn sem hafa gaman að því að skoða þetta furðulega lið út bænum.
Við þennan, svoldið furuðulega hátíðargestahóp bætist svo við frábært og feminiskt line-up af hljómsveitum í einstakri náttúrufegurð, við það verður til einhver galdur, þar sem ekkert skiptir máli en að njóta augnabliksins.
Meðal þeirra tónlistarmanna sem komu fram á hátíðinni í ár voru; Emilíana Torrini, Lay Low, Soffía Björg, Sóley, Pascal Pinon, Vök og Ylja. Allt hljómsveitir sem eru drifnar áfram af frábærum íslenskum kvenkyns tónlistarmönnum. — Það gerist varla betra, er það?