From the blog

From the blog

Secret Solstice – Föstudagur

secret-solstice-review-640x400föstudagur

Fyrir okkur sem vön eru snjáðum slóðum, frostþykkum tindum og myrkri sem engan enda virðist taka er auðvelt að ímynda sér hvers vegna sumarsólstöður kunna að tendra hátíðlegt hugarfar í íslendingum.

Dagana sem sólin neitar að tylla sér í júnímánuði hafa í langa tíð borið með sér hvíslaðar þjóðsögur kynjavera og galdra. Á þessum lengstu dögum ársins telja sumir skilin milli raunheima og kynjaheima óskýr og sögurnar tengdar við alls kyns dulúð og náttúrumátt sem fáir bera skilning á.

Þrátt fyrir að ólíklegt sé að hin fyrsta Secret Solstice hátíð muni framkalla kúarabb, hamskipti sela eða huldufólk er óneitanlegt frelsi og hippaleg lífsgleði sem ríkir yfir Laugardalnum þessa helgi og hver veit nema taumlausir skrattar og álfaflokkar fari í stjá til að ginna gesti með sér heim í klettabeltið. Það er því erfitt að ímynda sér mátulegri listamann til að hefja hátíðarhöldin en hina færeysku álfadís Eivør Pálsdóttur.

Sterkur flutningurinn leikur þungt í loftinu á stærsta sviði hátíðarinnar; Valhöll og ekki líður á löngu þar til töfrandi athöfnin framkallar fyrstu dögg sólstaðanna. Hvort sem um er að ræða færeyska galdra eða skemmtilega tilviljun þá er nýútgefin smáskífa þessarar mögnuðu listakonu einmitt titluð „Rain“ og á henni má finna lagið Trøllabundin sem Eivør lokar tónleikum sínu með.

Eftir því sem líður á daginn eykst aðstreymi gesta og smám saman fer spenningurinn fyrir hátíðinni að segja til sín. Hér er greinilega mögnuð hátíð að stíga sín fyrstu skref á íslenskri grundu og það er alveg stórfenglegt að fá að fylgjast með því.

Eitt af því fyrsta sem gestir koma auga á þegar þeir tölta á leikvanginn eru notaleg og litskrúðug hengirúm sem búið er að koma smekklega fyrir í skjóli barkþykkra bola. Sömuleiðis hafa hátíðastjórnendur stillt upp hengirólum í sama stíl í augsýn næst stærsta sviðsins, Gimli, þar sem áhorfendur geta fylgst með hátíðahöldunum í góðu yfirlæti.

Grasflötin, Miðgarður, sem minni sviðin og matvagnar hátíðarinnar eru staðsett á býður upp á einskonar Hróarskeldu upplifun þar sem hver er sinn eigin herra og frú.

Litskrúðugir búningar og múnderingar má sjá hvert sem litið er og ekki síður á sviði Gimlis þar sem Mosi Musik hefst handa við að dæla út jákvæðum og uppliftandi tónum í anda hátíðarinnar. Lögin sem hljómsveitin flytur eru virkilega vel útsett, röddunin upp á par og metnaðarfull sviðsframkoman skilar eftirminnilegum tónleikum sem passar eins og púsl í heildarmynd Secret Solstice.

Þess má geta að Mosi Musik er að vinna að tónlistarmyndbandi við lagið „I am you are me“, en það er væntanlegt á veraldarvefinn bráðlega.

Á sama tíma og gleðin leikur lausum hala í Miðgarði eru Fufanu bræður að sjóða saman drungalegri tóna í Ásgarði og þéttur flutningur þeirra á virkilega áhugaverðum hljómum skilar af sér flottu ofskynjunarjazzi og miðað við geimverulega tónana, staðfasta sviðsframkomu og sólgleraugu í stíl er engu líkara en mennirnir í svörtu séu komnir til að þurrka út minni áhorfenda með tauga-aflhlaðaranum góða.  Gestir sleppa þó við minnisþurrk að þessu sinni og halda hátíðarhöldum áfram með eftirminnilega tónleika Fufanu í farteskinu.

Stuttan spöl frá hátíðasvæðinu í faðmi Laugardalsins hafa erlendir gestir komið upp tignarlegum tjaldbúðum. Frábrugðið íslenskum útihátíðum spretta kúlutjöld ekki upp eins og gorkúlur víðsvegar og óreglulega heldur virðast gestir þessarar hátíðar leggja meiri áherslu á snyrtilega herbúða uppstillingu.

Þegar líður á síðari hluta dagskrárinnar tekur stemmingin að snúast í dansfögnuð og þrumandi bassa þar sem plötusnúðar gæða beinlausum búkum orku til að baða út örmum og sletta úr klaufum. Listamenn á borð við SkenG&B, Intro Beats og Gervisykur eru þar fremstir í flokki en meginn vettvangurinn er sviðið Embla og danstjaldið Askur.

Greinileg eftirvænting liggur í loftinu þegar franski listamaðurinn Yoann Lemoine, betur þekktur sem Woodkid, stígur á svið Valhallar við réttlætanleg fagnaðarlæti gesta. Kröftugur áslátturinn einn og sér á vel heima á sviði sem dregur nafnið af vígvirki ása því útsetningin svipar helst til stríðssláttar fallinna hetja. Lúðragjöll og glæsilegt sjónarspil magna síðan upp stórfenglega sýninguna á meðan alsæll múgurinn gólar hástöfum undir. Þessi liður í dagskrá Secret Solstice er því ótvírætt einn af hápunktum hátíðarinnar.

Þeir listamenn sem halda síðan fögnuðinum gangandi fram eftir kvöldi eru svo sannarlega ekki af verri endanum því í Ásgarð eru bræðurnir í Disclosure mættir til að þruma út þéttum töktum sem mjaðmir og leggir eiga erfitt með að neita aðgang. Eftivænting hátíðagesta fyrir tvíeykinu hafði verið á allra vörum frá því að hátíðin byrjaði og aðsóknin risti þær væntingar í stein. Glaumur og glumrugangur ráða hér ríkjum og undir forrystu Disclosure er fylkingin hugfangin í háttbundnum limaburði.

Í Miðgarði veittu Molotov Jukebox hinsvegar skemmtilega andhverfu á annars rafglaðri dagskrá. Með samsuðu af reggí, sving, calipso og alþýðutónlist sannfærði sveitin áhorfendur um að sleppa beislinu af sínum innri sígauna og drekka í sig frelsið sem harmonikku-steppið bauð þeim. Söngkona og fyrirliði hljómsveitarinnar, Natalia Tena ætti að vera íslendingum kunn því samhliða því að spila á tónlistahátíðum leggur hún stund á leiklist og hefur hún birst í hlutverkum á borð við Nymphadora Tonks í Harry Potter sem og villinginn Osha í  Game of Thrones þáttaröðunum.

Þegar fyrsti dagur Secret Solstice tók enda hafði hátíðagestum verið boðið upp á urmul af tónlist sem jafnvel gráðugustu tónhákar hefðu mettað sig á, en fyrir þá sem voru enn þyrstir bauð björt nóttin upp á tækifæri til að tæma djammhlöðurnar við undirleik þekktra plötusnúða eins og Carl Craig, Francesca Lombardo og Damian Lazarus.

Með vel heppnaða veislu að baki var ekki annað að gera en að búa sig undir þétta dagskrá komandi daga og alveg ljóst að hátíðarhöldin voru aðeins rétt að byrja. 

Jón Atli Magnússon