From the blog

From the blog

Sónar Reykjavík 2014

sonar_2014

Sónar tónlistarhátíðin er ein stærsta hátíð heims fyrir framsækna raftónlist.

Hefur hátíðin ferðast vítt og breitt um heiminn síðan hún var fyrst haldin í
Barcelona árið 1994. Loks árið 2013 skolaði hátíðinni norður til Íslands
og inn í Hörpuna, hið glæsilega tónlistarhús Íslendinga.

Á Sónar er iðulega boðið upp á ferska, nýja og áhugaverða raftónlist.
Veisluborð Sónar var ekki af verri endanum þetta árið. Á matseðlinum voru
stórir listamenn á borð við Major Lazer (USA), ört stækkandi nöfn
eins og Bonobo (UK) auk þess besta úr tónlistarflóru.
Tónlistarmenn sem spila á Sónar eru, hver á sinn hátt,að gera eitthvað nýtt og ferskt í raftónlistinni.

Árið í ár var engin undantekning en fyrsta kvöld riðu íslenskir
tónlistarmenn á vaðið. Högni Egilsson eða HE (IS), einkum þekktur sem
forsprakki hljómsveitarinnar Hjaltalín kom fram einn og óstuddur með nýtt
sólóefni. Tónlist hans er frekar framsækin og það þarf dálítinn tíma til að melta
hana en mjög áhugaverð. Högni blandaði saman alls konar stílum, allt frá
dramatískum og jafnvel ósamhljóða strengjaútsetningum til elektrónískra takta
undir kassagítar. Hin nýstofnaða rafsveit Fura (IS) sem inniheldur meðal annars
meðlimi rafsveitarinnar Bloodgroup (IS) spiluðu kraftmikið elektró undir
rafgítarrokki og söngkonu sem minnti dálítið á Björk án þess þó að um kóperingu
væri að ræða. GusGus (IS), stærsta hljómsveitin í íslenskri raftónlistarsenu lokaði
svo kvöldinu með því að flytja glænýtt efni sem fékk alla til að dansa, en til
gamans má geta áðurnefndur Högni Egilsson syngur ljáir sveitinni rödd sína.
Þannig hringdu þeir inn hátíðina með framsæknu en jafnframt taktföstu elektrói
sem kom öllum til að dansa.

Föstudagskvöld Sónar hátíðarinnar bauð upp á fersk atriði eins og Bonobo (UK)
og Jon Hopkins (UK). Kvöld undirritaðs byrjaði á hljómsveitinni Starwalker
(IS/FR) inni í Norðurljósasal Hörpunnar. Þetta band er nýjasta samstarfsverkefni
hans Barða úr Bang Gang og hins franska Jean-Benoît Dunckel, sem einna
þekktastur er fyrir að vera annar helmingur franska elektró dúósins Air. Og já,
þetta band var eins og Air á sterum. Mjög kraftmikið elektró popp/rokk hér á
ferðinni. Undir dreymandi tónum sem Dunckel töfraði fram með hljómborðum
sínum og synthum var barið duglega á bassa, rafmagnsgítara og
rafmagnstrommusett. Mjög góð byrjun á góðu kvöldi.

Næsta bomban var Bonobo. Í troðfullu Silfurberginu byrjaði Bonobo á synthum sínum og öðrum
elektrónískum stjórntækjum til að koma stuðinu í gang ásamt trommara og öðrum hjálparkokkum teknótakkanna. Fljótlega eftir að stuðið var komið í gang
hoppuðu Bonobo og meðreiðarsveinar á hefðbundnari rafmagnshljóðfæri eins og
bassa og rafmagnsgítar og einn tók meira að segja upp saxafón! Hörundsdökk
söngkona toppaði svo allt saman með yndisfríðum söng sínum yfir “tjill-át”
elektróið sem Bonobo er þekktastur fyrir. Stemmningin var rífandi í salnum. Á
hægri hönd dönsuðu elektró hippar stanslaust alla tónleikana, greinilega á æðra
vitundarstigi. Fyrir framan mig dansaði þessi gullfallega artípía rólega í takt við
tónlistina og reykti hverja sígarettuna á fætur annarri á meðan. Á vinstri væng
var stelpa sem stóð illa í lappirnar vegna ofdrykkju og pirraði aðra áhorfendur
með jafnvægisleysi sínu. Uppskar hún næstum því slagsmál fyrir vikið.
Þetta myndaði eiginlega enn betri stemmningu.
Við hliðina á Bonobo sýndu Danirnir í When Saints Go Machine hvernig elektró band rokkar húsið.
Kraftmikil sýning með rosalegum trommuleik og söngvara sem hikaði ekki við að nota alls kyns áhugaverða effekta á rödd sína.

Á eftir dýrðlingavélinni lá leiðin í bílakjallara Hörpunnar til að kíkja á
alvöru verksmiðjureif sem búið var að koma upp þar og næstur á eftir þeirri
geðveiki var Berndsen (IS). Hann flutti alla dansandi aftur til níunda áratugarins
með léttleikandi stuðpopp elektróník sinni. Mjög skemmtilegt og líflegt þar sem
allir dönsuðu af sér rassgatið og íslenskir aðdáendur sungu með öllum lögunum.
Kvöldið endaði svo á honum Jon Hopkins (UK) í Silfurberginu. DJ-settið hans
snerist fyrst og fremst um það að koma áhorfendum á hreyfingu. Mjög fjölbreytt
og áhugaverð danstónlist þar sem danstaktarnir eru áberandi en melódíurnar
skemmtilegar og seiðandi. Hopkins kom öllum á æðri dansvædd með dreymandi
töktum sínum í Silfurberginu og endaði þar með mjög skemmtilegt og áhugavert
kvöld.

Það voru íslenskir tónlistarmenn sem sáu um upphitun á þriðja og síðasta
kvöldi Sónar hátíðarinnar. Bönd á borð við Sísí Ey, Vök, Fm Belfast og Hjaltalín
spiluðu öll þetta kvöld. Sísí Ey holdgerðu andrúmsloftið sem Sónar stendur fyrir.
Grípandi og jafnframt framsækið elektró spilað í myrkum Norðurljósasal í
útpældri ljósasýningu, allir meðlimir klæddir upp í flottum dressum og
söngkonurnar með klikkaðar hárgreiðslur. Allt voða töff, artí og nýtt en samt
stuð á sama tíma. Vök fyllti litla salinn Kaldalón þannig að færri fengu að sjá en
vildu. Það sýnir áhugann á þessari sveit sem sigraði íslensku músíktilraunirnar
2013. Bandið spilar þungt, hægt og dálítið drungalegt elektró studda af saxafóni,
rafmagnsgítar og frábærri söngkonu. Fm Belfast keyrði laugardagspartýið í gang,
þau bókstaflega rifu þakið af Silfurberginu með diskóskotnu gleðielektrói sínu.
Fjórir söngvarar og tveir trommarar sáu til þess að allur salurinn dansaði sig
sveittan. Kjóll söngkonunnar skein í myrkrinu og frábærar falsettur einkenndu
strákana. Eitt besta atriði hátíðarinnar.

Á meðan dansinn dundi í Silfurberginu voru hugsuðurnir samankomnir í
Norðurljósasalnum þar sem Hjaltalín steig á svið. Hjaltalín spilaði sín hægu og
minimalísku lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Enter 4. Högni söngvari flutti ljóð
sín við þungt og hægt bítið, bassann, fiðluna, píanóið og minnti helst á norrænan
sólguð sem komin var til að kveða burt langan vetur með galdraþulum sínum.
Hjaltalín voru eins og elektrónísk goðsaga. Sama var upp á teningnum þegar
undirritaður rambaði inn á James Holden (UK) í sama sal seinna um kvöldið.
Hann var besta uppgötvun hátíðarinnar. Líkt og Hjaltalín fundu tónleikar hans
einhverja nýja vídd. Sviðið minnti einna helst á stjórnklefa úr Star Trek þætti, svo
mikið af græjum var hann með í kringum sig. Beint á móti honum lék
djasstrommari og á milli þeirra var saxófón leikari. Saman léku þeir löng og
skrítin lög með síbreytilegum töktum, dreymandi saxafóni og alls konar rugli úr
geimskipi Holdens. Þetta var eiginlega svona elektró-progg.

Í bílakjallaranum hélt ofurplötusnúðurinn Diplo reifinu gangandi sem aldrei fyrr.
Þar var hver kjaftur kominn í beint samband við æðri víddir dansguðanna. Diplo
er einmitt maðurinn á bak við Major Lazer, eitt stærsta nafn tónlistarheimsins í
dag. Hann hefur þurft að hlaupa úr bílakjallaranum því skömmu síðar byrjaði
Major Lazer að skjóta sínum tónum á dansþyrsta í Silfurbergi. Á sama tíma
byrjaði danski töffarinn Trentemøller að loka hátíðinni í Norðurljósasalnum.
Major Lazer gaf gestum það sem þeir vildu fá; tækifæri til að dansa á við góðan
mánuð í ræktinni og sjá hvernig teknótónleikar árið 2014 eiga að vera.
Gott hefði verið að skilja líkamann eftir hjá Major Lazer en hugann inni hjá Trentemøller
þar sem undirritaður flakkaði á milli tónleikanna beggja. Tónlist Trentemøller er
áhugaverðri að mínu mati. Eins og Bonobo blandaði hann elektróinu sínu saman
við trommur, bassa og fullt af sörf-rokk rafmagnsgíturum. Þetta var rokkað og
jafnvel pönkað elektró, sérstaklega í síðasta laginu sem var sérdeilis flott. Mjög
gott. Þótt Major Lazer væri ekki með neina gítara á sviðinu voru þeir hins vegar
með áhorfendur í vasanum og spiluðu á þá eins og gítar í Guns´n´Roses. Þeir létu
alla dansa eins og brjálæðinga og syngja með lögunum og fara úr að ofan. Þeir
helltu kampavíni yfir fólkið og könnuðu svo “twerk”-kunnáttu íslenskra kvenna
með því að draga um tíu til fimmtán stelpur upp á svið. Einnig mætti sjálfur
Major Lazer í brúðulíki og tók sporin upp á sviði með “tvörkurunum”. Þetta var
klikkað partý.

Þannig endaði Sónar Reykjavík 2014. Þessi hátíð er frábær fyrir þá sem vilja
kynnast nýrri raftónlist, fyrir þá sem vilja dansa af sér spjarirnar og kynnast því
besta sem íslensk tónlistarflóra hefur upp á að bjóða. Auk þess var íslenska
vetrarveðrið einstaklega fallegt þessa dimmu og drungalegu helgi í miðjum
febrúar. Heiðskýr vetrarsólin glitraði á daginn og norðurljósin hringdu svo inn
kvölddagskránna með tilheyrandi partýi. Þvílík helgi!

Hrafnkell Már Einarsson og Stefán Atli Jakobsson

MYNDIR

FIMMTUDAGUR

FÖSTUDAGUR

LAUGARDAGUR