Á föstudagskvöldum, í hjarta Reykjavíkur er erfitt að finna stað sem ber betur með sér þann hráa kynþokka sem einkennir vel heppnaða rokktónleika en Gamla Gaukinn. Spennan sem liggur í loftinu á þessum dimma reykfyllta stað er óumflýjanleg. Fólkið streymir upp stigan í átt að sneriltrommu bjórdælunum enda eru tónleikar kvöldsins gott tilefni til að væta kverkar og skála, því að kvöldi loknu heldur The Vintage Caravan í þriggja vikna tónleikaferðalag um Evrópu. Aðdáendur eru því ólmir í að samgleðjast Vintage mönnum með tilheyrandi hljóðkerfisdrunum og heilasteikjandi hamfaralátum.
Leðjukennt groddarokk drynur í trukkaboxum Gauksins og tónleikarnir hefjast. Hljómsveitin ONI er byrjuð að hita upp fyrir komandi átök Vintage manna og ekki líður að löngu þar til hver einasta mannvera innan veggja Gamla Gauksins er staðin á fætur og komin í návist þessara pungþungu austfirsku rokkara.
Níðþungur ásláttur í bland við flæðandi riff, kafloðin raddbönd og þarmalosandi bassastef drífur lögin áfram og hitinn stigmagnast við hvern kafla.
Reykmökkur, sviti, áfengi og djúpar samræður fylla svo hléið þangað til Vintage menn koma sér fyrir og því næst byrjar röð atvika sem einungis er hægt að lýsa með einu orði: Rokk!
„Eru ekki allir sexí!?“ Hrópar Óskar Logi, forystumaður The Vintage Caravan við kraftmiklar undirtektir löðrandi aðdáenda og tilefni tónleika kvöldsins gýs upp með andlitsbræðandi laginu „Craving“ þar sem hver einasti líkami innan hraundyngjunnar við sviðið kraumar af spennulosun við dúndrandi taktfastan áslátt Guðjóns.
Samrýning Vintage bræðra á sviði skín augljóslega í gegnum þéttan flutning þeirra og ofskynjunar rokkið sem streymir um salinn með hverri nótu segir sannfærandi sögur sem hver aðdáandi túlkar með mis þokkafullum líkamstjáningum. Á meðan Óskar rífur í sig hljóðmúrinn með þrumandi gítarleik stjórnar bassafanturinn Alexander salnum eins og herforingi með hverri hreyfingu og augnaráði. Ólgan í salnum færist í aukana og djöflahornin stingast í gegnum spennufyllta andrúmsloftið er hvert lagið á fætur öðru leiðir áheyrendur í ferðalag um sköpunarheim The Vintage.
Eftir frábærar viðtökur þurfa Vintage menn litla hvatningu til að halda tónleikunum í ljósum logum og uppklappslögin eru svo sannarlega ekki af verri endanum. Þegar meðlimir telja svo í lokalagið „Lets get it on“ má sjá salinn svamla í hárþeytingum og svitaperlurnar glampa í ljósi kröftugra marglitra kastara. Dynjandi lófaklapp kveður svo sveitina er þeir fleygja sér fram fyrir handriðið í vel heppnaða sviðsdífu á meðan Óskar svíður tóninn á strengjuðu, þunnhálsa elskunni sinni.
Jón Atli Magnússon