Events

Events

Blúshátíðin í Ólafsfirði

Tónlistarhátíðin Blue North Music Festival, eða blúshátíðin í Ólafsfirði, eins og heimamenn kalla hana gjarna hefur verið haldin síðan árið 2000. Er hátíðin því haldin í 15. sinn í sumar og þar með elsta blúshátíðin á landinu. Sem fyrr segir er þetta tónlistarhátíð þar sem hinir ýmsu tónlistarstraumar fá að flæða, en megin áherslan hefur alla tíð verið blús. Hátíðin fer að stórum hluta fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Haldnir eru tónleikar á kvöldin en upp úr hádegi á laugardeginum er sköpuð markaðsstemning þar sem sölubásar eru settir upp með handverki og öðrum vörum, grillað og leikið.

Á útimarkaðnum munum við fá til okkar ungt tónlistarfólk af norðurlandi til að blúsa fram eftir degi, en undanfarin ár hefur hátíðin staðið fyrir blússkóla og gefst nú nemendum skólans tækifæri á að koma fram. Lokatónleikar hátíðarinnar fara svo fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg um kvöldið. Kostar á tónleikana inni, en skemmtunin úti á laugardeginum er ávalt frí fyrir gesti og gangandi.

Við erum mjög stollt af því að vera elsta blúshátíðin á Íslandi og leggjum metnað okkar í að bjóða upp á bestu tónlistarmenn íslands hverju sinni, stundum í bland við erlenda listamenn.

Verið velkomin í blúsbæinn Ólafsfjörð helgina 26.-28. Júní 2014.