Events

Events

Bræðslan

Tónlistarhátíðin Bræðslan hefur verið haldin á Borgarfirði eystri síðan árið 2005 í gamalli síldarbræðslu sem hentar, ótrúlegt en satt, frábærlega fyrir tónleikahald.

Hugmyndin varð til árið 2005 þegar ákveðið var að blása til tónleika í tilefni hundrað ára afmælis Jóhannesar Kjarval, en Borgfirðingar hafa litið á hann sem einn af sínum síðan hann var þar ungur í fóstri. Haft var samband við annan ská-Borgfirðing, Emiliönu Torriní og stakk hún upp á að halda tónleikana á einhverjum óhefðbundunum stað. Gamla Bræðsluskemman var fyrir valinu og hepnuðust tónleikarnir vonum framar.

Árið eftir kom Emiliana aftur með kunningja sína, Belle and Sebastian, með sér og eftir það varð ekkert aftur snúið.

Meðal listamanna sem hafa komið fram á þeim níu-Bræðslum sem hafa verið haldnar eru: Megas, Damien Rice, Þursaflokkurinn, Eyvör, Of monsters and men, Mannakorn, Glen Hansard og Hjálmar.

Bræðslan er tónlistarhátíð sem leggur áherslu á fagmannlega umgjörð og metnaðarfulla dagskrá, en umfram allt að efla menningarlíf á Borgarfirði og Austurlandi. Hátíðin hlaut Eyrarrósina árið 2010 fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni.

Bræðslutónleikarnir sjálfir fara ætíð fram á laugardagskvöldinu en dagana á undan eru fjölbreyttir Off-Venue tónleikar í Fjarðarborg, í Álfacafé og víðsvegar um þorpið.

Borgarfjörður eystri er án vafa eitt fallegasta byggðarlag landsins, með alla helstu þjónustu fyrir tónleikagesti. Nánari upplýsingar um þjónustu á Borgarfirði er að finna á  www.borgarfjordureystri.is