Events

Events

Grímseyjardagar

Grímseyjardagarnir voru haldnir í fyrsta skipti árið 2011. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá byggða á grímseyskum hefðum og því hráefni sem árstíminn býður upp á. Grímseyingar standa alfarið að hátíðinni og taka vel á móti gestum. Þetta er líka tilvalinn tími til að skoða eyjuna þegar allar syllur og holur eru fullskipaðar af fugli, sólin farin að verma klappir og tún nánast allan sólarhringinn og lífríkið komið úr viðjum vetrar. Grímseyjardagar 2014 verða haldnir 30. maí til 1. júní. 

Fyrir utan þá upplifun sem það er að fara til Grímseyjar, geta gestir státað af því að hafa komið norður fyrir heimskautsbaug og skoðað alla þá skemmtilegu náttúru sem er að sjá í eynni iðandi af fuglalífi og sólin skín nánast allan sólarhringinn. Þá er talsverð þjónusta við ferðafólk í Grímsey, til að mynda veitingastaðurinn Krían, gistiheimilin Gullsól og Básar, minjagripasalan Gallerí Sól sem selur handunnar vörur eftir Grímseyjarkonur og loks er að geta matvöruverslunar og hinnar fínu innisundlaugar Grímseyinga.

Vert er einnig að skoða Grímseyjarkirkju sem byggð var árið 1867 en hún var stækkuð og endurbætt árið 1932. Altaristafla kirkjunnar er gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og er hún eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci.