Events

Events

Í túninu heima

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, er haldin síðustu helgina í ágúst ár hvert. Árið 2014 er hún dagana 29.til 31.ágúst. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð sem stendur í þrjá daga og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Bærinn er klæddur í hátíðarbúning með skreytingum þar sem hvert hverfi hefur sinn lit. Fjölbreyttir menningarviðburðir eru í boði, tónleikar, myndlistasýningar, útimarkaðir og íþróttaviðburðir. Hátíðin hefst formlega á föstudagskvöldi með skrúðgöngu varðeld og brekkusöng í Álafosskvos.
Á hátíðinni fara flestir viðburðir fram utandyra og má þar helst nefna: Markað í Álafosskvos og í Mosfellsdal, Sýning á flugvélum og fornbílum hjá Flugklúbbi Mosfellsbæjar við Tungubakka, barnadagskrá á miðbæjartorgi og tívolí. Heilsutengdir viðburðir eru jafnan við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi og stíga ávallt landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum á svið. Tónleikarnir enda á flugeldasýningu og fyrir þá sem ekki eru búnir að fá nóg er dansleikur í íþróttamiðstöðinni að Varmá fram á rauða nótt.  Þema hátíðarinnar er íslenska lopapeysan.