Events

Events

Reitir

Frá árinu 2012 hefur verkefnið Reitir árlega boðið um 30 einstaklingum viðsvegar að úr heiminum til Siglufjarðar að taka þátt í tilraunakenndri nálgun á hina hefðbundnu listasmiðju. Reitir byggir á þeirri hugmynd að með því að blanda saman mörgum ólíkum starfsgreinum nýtist fjölbreytt reynsla þátttakenda sem grunnur að nýstárlegum verkum sem fjalla á einn eða annan hátt um Siglufjörð. Reitir er grunnur að skapandi alþjóðasamstarfi í þágu bæjarins en er einnig miðjupunktur í vaxandi tengslaneti sem tegir sig þvert yfir heiminn. Markið Reita er að vera virkur partur af uppbyggingu Siglufjarðar sem áfangastaður nýrra hugmynda gegnum þverfaglegt skapandi samstarf.

Verkefnið hýsir Alþýðuhúsið á Siglufirði. Menningarráð Eyþings og Evrópa Unga Fólksins hafa styrkt verkefnið auk minni fyrirtækja í bænum.

Staðbundið samstarf
Öll vinnan er staðbundin, það á einnig við um rannsókna- og hugmyndavinnu. Þátttakendur mæta á staðinn án fyrirfram mótaðra hugmynda með opinn hug gagnvart óeigingjörnu samstarfi og drifkraft til að skapa í þágu bæjarins. Reitir er 12 daga verkefni sem skiptist í tvo hluta, fyrri hlutinn er tileinkaður rannsókna- og hugmyndavinnu, en seinni hlutinn framkvæmd og úrvinnslu verkefna sem lýkur með opnun.

Siglufjörður sem umfjöllunarefni
Öll verk þátttakenda fjalla um bæjarfélagið á einn eða annan hátt. Þeir vinna með hugmyndir sem byggja t.d. á sögu bæjarins, framtíð, samfélagsmynd eða menningarlegum sérkennum. Það er fyllilega undir þátttakendum komið hvaða nálgun þeir beita, á hvaða hátt og með hverjum. Þessi aðferð býður uppá margar óvæntar útkomur sem hingað til hafa verið í formi gjörninga, bókverka, vefsíðu, skúlptúra, innsetninga, tónverks, prentverka, leturgerðar, myndbandsverka og veggverks.

Vinnuferli og sjálfgagnrýni
Frjálst eðli verkefnisins gerir það að verkum að hvert ár skilar ólíkri útkomu. Þátttakendur móta áherslur og stefnu verkefnisins á hverju ári og eru ábyrgir fyrir framkvæmd einstaka verka. Þeir skipta sér sjálfir í hópa, útbúa tímaáætlun og finna stað og fólk til að vinna með. Þátttakendur hafa mikið að segja um þróun verkefnisins, og í lok þess eru umræður um hvað má betur fara og hvað var vel heppnað.

Fjölbreytni þátttakenda
Hvert ár samanstendur hópurinn af u.þ.b. 30 einstaklingum, 2/3 erlendis frá, 1/3 frá Íslandi. Kynjahlutfall er jafnt og þátttakendur eru frá aldri 18 ára aldri og uppúr. Hópurinn er handvalinn og lögð er áhersla á þátttöku fólks frá eins mörgum starfsgreinum og unnt er með mismunandi bakgrunn og sérkunnáttu. Mikill áhugi er fyrir blönduðum hóp úr skapandi greinum, raungreinum og félagsvísindum sem tryggir ólíkar nálganir og fjölbreytni í samstarfi.

Bein þátttaka bæjarbúa
Reynslan hefur sýnt að bein samskipti þátttakenda við íbúa skilar fjölbreyttri og persónulegri þekkingu og gefur íbúum tækifæri á að taka þátt og hafa áhrif á úrvinnslu verka. Hvert ár er leitað nýrra leiða við að þróa sambandið við bæjarbúa.

Nýting auðlinda
Bærinn er vel búinn hjálpsömum einstaklingum og býður uppá margvíslega þjónustu og tækifæri. Meðvitund um mikilvægi þeirra í sambandi við framkvæmd verkefnisins hefur reynst dýrmæt og dregur fram sérstöðu Siglufjarðar.

Samstarf við stofnanir og fyrirtæki
Það er mikilvægt að bærinn sé viðriðinn verkferlið og taki þátt í mótun þess. Hvert ár er haldinn fundur með fulltrúum bæjarins um áframhald verkefnisins og þessi samvinna hefur reynst vel og alið af sér margar góðar hugmyndir. Reitir er árlega styrkt af bakaríinu og fiskbúðinni sem hefur ekki bara jákvæði áhrif á efnahag verkefnisins heldur eykur einnig jákvæð samskipti við bæinn. Þátttakendur Reita hafa aðgang að áhaldahúsi bæjarins og ýmis fyrirtæki veita afslátt af vörum og þjónustu.

Sjálfbærni verkefnisins
Sjálfbærni vegur þungt í allri hugmyndafræðinni og allt miðast útfrá langtímaáætlunum um að verkefnið eigi margra ára líftíma. Lögð er áhersla á að flokka og endurvinna rusl, nýta afgangsefnivið frá tréverkstæðum og með leyfi bæjarins, nýta ruslahaugana þar sem oft leynast miklir fjársjóðir. Eftir verkefnið er gengið frá öllu í samráði við bæinn.

Mikilvægi og samhengi
Siglufjörður hefur ríka sögu af menningu og iðnað en eftir 1985 þegar mikilvæg þjónusta var fluttar burt, flúði fólk bæinn og fjárhagurinn rýrnaði. Bænum hefur á síðustu 10 árum tekist að snúa þessari þróun við og tenging Siglufjarðar við Eyjafjarðarsvæðið með nýjum göngum hefur stóraukið ferðamennsku og skapað mörg ný tækifæri. Þjóðlagahátíðin, Síldarminjasafnið, Rauðka og Ljóðasetur Íslands hafa staðið fyrir öflugri menningaruppbyggingu sem við byggjum á í dag. Bærinn er í mikilli uppsveiflu og Reitir hafa hlutverk í þeirri þróun. Reitir vinna að gegnumgangandi endurskoðun Siglufjarðar þar sem þátttakendur beita sérkunnáttu sinni í samstarfi við aðra til að móta nýja nálgun á mynd bæjarins. Reitir eru verkfæri sem má beita á bæinn til að skoða möguleika, prófa lausnir og gera tilraunir án langtíma skuldbindingar, þar sem öll verkin eru tímabundin. Verkefnið veitir bæjarbúum nýja sýn og gefur þátttakendum tækifæri á að þróa sína eigin iðju, með áherslu á skemmtilegt, skapandi og sýnilegt samstarf.