Events

Events

Sónar Reykjavík

Hvað er Sónar Reykjavík? Lykilorðið er nánd. Í Reykjavík mun koma í ljós hvernig hægt er að endurskapa stóra og virta tónlistarhátíð á smærri tónleikastöðum. Nýja tónlistarhúsið Harpa og gleðin í tónlistinni mynda mótvægi við hinn dimma og kalda íslenska vetur. Á Sónar Reykjavík mun skapast einstök nánd sem aðeins fæst þegar listamönnum og áhorfendum er gefið tækifæri á að mynda tengsl í litlu tónleikarými.

Það er ekki einfalt að feta í fótspor Sónar Barcelona, sem hefur verið brautryðjandi á sínu sviði um árabil. Engu að síður teljum við vel raunhæft að setja upp viðburð sem verður enginn eftirbátur Sónar Barcelona hvað varðar tónlistaratriði og stemmningu.

Sónar Reykjavík verður á fimm sviðum og geta gestir orðið allt að 3.500 talsins. Auk tveggja hefðbundinna tónleikasala verður hluta af bílakjallara tónlistarhússins breytt í næturklúbb þar sem íslenskir og erlendir plötusnúðar munu þeyta skífum á meðan á hátíðinni stendur. Jafnframt verður sett upp sérstakt tónleikasvið innan Hörpu á glæsilegu svæði sem jafnan er ekki nýtt til tónleikahalds. Ennfremur verður boðið upp á sitjandi tónleika í Kaldalóni.