Events

Events

Steampunk Iceland – Ævintýrahátíð í Vesturbyggð

Helgina 27. til 29. júní 2014 mun bæjarfélagið Vesturbyggð breytast í ævintýralandið Bíldalíu í tengslum við GUFUPÖNK eða “Steampunk” hátíð sem haldin verður í sumar.

Á þessarri hátíð verður stefnt saman áhugafólki hvaðanæfa úr heiminum sem aðhyllast svokallaða Steampunk stefnu eða gufupönk í listum, klæðnaði og háttum.

Ævintýrið er eitt risastórt leikhús þar sem þáttakendur eru í senn persónur, leikendur og áhorfendur.

Á þessarri fyrstu ævintýrahátíð “Steampunk Iceland” er reiknað með að hingað komi um 300-400 manns en markmiðið er að hátíðin muni  á næstu árum verða sjálfbær.

Bíldalía er ævintýraland við endimörg heimsins, nánar tiltekið vestast á vestfjörðum. Þar hefur tíminn nánast staðið í stað frá því um aldamótin 1900 þegar uppgangur var þar mestur.

Í Bíldalíu gerast atburðir bæði þessa heims og annars, þar mætast og funda dularfull leynifélög, þar starfa alþjóðleg vísindateymi að rannsóknum á yfirskilvitlegum hlutum og þar er að finna leið inn í aðrar víddir, annan heim handan okkar.

 

En hvað er Steampunk?

Gufupönk eða Steampunk er kennt við gufuöldina seint á 19. öld og fram undir fyrri heimstyrjöld. Gufupönk er ævintýraheimur gufualdar, draumar og framtíðarspár rithöfunda og vísindamanna Viktoríutímanns. Gufupönk er orðið gríðalega vinsælt í Evrópu og Bandaríkjunum sem þema í hlutverkaleikjum, í kvikmyndum, tölvuleikjum og tísku.

Gufupönk er afturhvarf til framtíðar þar sem klassísk fagurfræði nítjándu aldar er notuð með nútíma tækni.

“Eins og mynskreyting við ævintýrasögu eftir Jules Verne”

Hlutverkin skapar maður sjálfur, en vinsæl hlutverk Gufupönks eru til dæmis landkönnuðir, áhöfn loftskipa, loftskipasjóræningjar,  “Brjálaði vísindamaðurinn”, ofurhetjur, prinsar og prinsessur, dulfræðingar og ýmislegt fleira.

Í Bíldalíu eru líka álfar eða huldufólk, skrímsli, sérvitringar, ævintýrafólk, tildurdrósir og flottræflar.

 

Hvað verður gert á hátíðinni?

Um helgina 27.-29. Júní breytist Vesturbyggð í ævintýralandið Bíldalíu. Komið verður upp landamærastöðvum þar sem ferðalangar geta fengið sérstakt vegabréf sem inniheldur jafnframt upplýsingar um landið. (Hátíðina) Vegabréfið virkar líka á þann hátt að ferðalangar fá stimpil í passann þegar þeir heimsækja staði sem auglýstir eru í vegabréfinu.

Fullstimpluðu vegabréfi er svo hægt að skila inn og fá verðlaun.

Dagskráin verður svo til samfelld og færist á milli staða (Bíldudalur-Patreksfjörður-Barðaströnd) En jafnframt er reiknað með að ferðaþjónustur á svæðinu bjóði upp á sitthvað sem tengist hátíðinni.

Þá verða leiksýningar, tónleikar, listasýningar, bíó, markaðssvæði og krýningarhátíð konungs og drottningar Bíldalíu og hlöðuballi á vestfirska vísu.

 

Dagskráin verður á þessa leið:

-Föstudag yrði setningarathöfn og sýning (Eldgleypar og loftfimleikar) um 14-17 og um kvöldið verða tónleikar og tískusýning með leikrænu ívafi og svo gleði fram á nótt á skrímslaballi í gotneskum stíl.

-Laugardagur: markaður, útileikhús, skoðunarferðir, skemmtiatriði.

Um kvöldið væri útiveisla, og útitónleikar með varðeldum og flugeldum, loftfimleikum og útileikhúsi en svo verður hlöðuball um kvöldið með völsum og skottísum.

-Á sunnudeginum yrði fram haldið tilboðum í skoðunarferðir, markaður og að sýna sig og sjá aðra. En um kl. 17 væri krýningarhátíð konungs og drottningar Bíldalíu. Tilkynnt verður um bestu búningana á sýningunni og veitt verðlaun. Tekið verður á móti fullstimpluðum vegabréfum og veitt verðlaun. Að lokum verða tónleikar með aðalnúmeri hátíðarinnar.