Events

Events

Víkingahátíð

Víkingahátíðin við Fjörukrána í Hafnarfirði er elsta og stærsta hátíð sinnar tegundar sem haldin er á Íslandi. Frá árinu 1995 hafa Hafnarfjörður og Fjörukráin verið leikvöllur víkinga sem hafa í gegnum tíðina sýnt flesta þætti menningar víkingaaldar; svo sem siglingar, handverk, matargerð, leiki, sagnalist, bogfimi, bardaga og tónlist. Í gegnum árin hafa komið hingað þúsundir listamanna hvaðanæva að úr Evrópu og Ameríku og  tekið þátt því að heiðra minningu forfeðra okkar. Stundum hefur verið tilefni til að koma með óvænt innskot, stílbrot til að undirstrika enn frekar hvernig nútíminn og víkingar fortíðar geta verið saman í sátt og samlyndi og myndað sterka heild. Það hafa til dæmis verið haldin víkingabrúðkaup og víkingaskírnir. Allt frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að hafa allt sem upprunalegast, að hátíðargestum finnist sem þeir hafi verið færðir þúsund ár aftur í tímann. Skip frá útlöndum hafa komið til hafnar og verið tekið í naust, vörur bornar á land og kaupmenn hafa tekið upp varning sinn og stundað kaupskap. Það er mikið um dýrðir, tónlist og dansmeyjar, mungát góð eins og segir í fornum bókum og borð svigna undan kræsingum. Síðan þegar allt virðist leika í lyndi kastast í kekki, menn berast á banaspjótum og

í góðsemi vega menn hvern annan.

Á Víkingahátíðinni 2014 má gera ráð fyrir um þrjú hundruð víkingum, íslenskum sem erlendum. Markaðurinn verður opinn alla hátíðardagana frá kl. 13:00 – 20:00.