From the blog

From the blog

Sólstafir halda tónleika í tengslum við RIFF

sólstafir2

Þungarokksveitin Sólstafir flytur eigin tónsmíðar á kraftmikinn hátt við víkingamyndina Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson. Með tónleikunum er þrjátíu ára afmæli kvikmyndarinnar fagnað.

Víkingaarfur Íslendinga verður í brennidepli á kvikmyndatónleikum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF). Þungarokksveitin Sólstafir mun tjalda öllu til við kvikmyndina Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson en kvikmyndin var frumsýnd árið 1984 og fagnar því þrjátíu ára afmæli í ár.

Sólstafir gefa út plötuna Ótta, sem er þeirra fimmta plata í fullri lengd, í lok ágúst og leika lög af henni, í bland við eldri tónsmíðar, eftir því sem passar við víkingasögu Hrafns.

Hrafninn flýgur gerist á Íslandi skömmu eftir landnám og náði töluverðum vinsældum á Norðurlöndunum og víðar um heim. Kvikmyndatónleikarnir eru einstakur listviðburður þar sem áhorfendur skynja sögu og frásögn Hrafns í gegnum tónlist Sólstafa en ekki í gegnum upprunalegan hljóðheim myndarinnar.

Sólstafir byrjuðu líf sitt í bílskúr í Breiðholtinu árið 1995 og hafa síðan þá sannað sig sem kraftmikil og eftirminnileg tónleikahljómsveit, með flutningi sínum hér heima og utan landssteinanna.

Aðalbjörn Tryggvason – Söngur og gítar

Guðmundur Óli Pálmason – Trommur

Svavar Austmann – Bassi

Sæþór Maríus Sæþórsson- Gítar

Miðar eru til sölu á miði.is