From the blog

From the blog

Blúshátíð Reykjavíkur 2014

Blúshátíð 2014

Blúshátíð Reykjavíkur hefur svo sannarlega fest sig í sessi í tónlistarlífi landans síðan hún var fyrst haldin árið 2003. Undanfarin ár hefur hátíðin verið haldin á Hótel Nordica þar sem aðalsviðið er inn í veislusal hótelsins á meðan anddyrinu er breytt í altari blússins. Þar prýða goðsagnir blússins veggina, bjór og viský flæðir af börunum tveimur og blúsararnir sem koma fram árita plöturnar sínar sem þar eru einnig til sölu. Einnig er þar minna svið fyrir blúsdjammið sem blúsfærir skella í að tónleikum loknum. Aðstandendur hátíðarinnar eru miklir reynsluboltar sem hafa spilað á blúshátíðum víða um heim og markmiðið er að búa til hátíð á kalíberi með flottustu blúshátíðum heims. Ekkert er til sparað þegar kemur að hljóðkerfinu og sándið í veislusalnum því virkilega fínt.

Dagskrá hátíðarinnar var ekki af verri endanum í ár. Fyrst ber að nefna Blúskompaní þeirra Magga Eiríks og Pálma Gunnarssonar sem voru aðalnúmerið á þriðjudagskvöldinu. Með þeim var enginn annar en íslenski blúsinn holdi klæddur hann Kristján Kristjánsson eða KK sem studdi félagana með kassagítar og munnhörpu. Á trommunum var Benni trommari 200.000 naglbíta auk Óskars Guðjónssonar á saxófón. Semsagt, epískt gengi úr íslenskri tónlistarsögu mætt saman á sviðið á Hótel Nordica á þriðjudagskvöldinu. Þessi hópur sveik náttúrulega engan og skildu þeir Maggi Eiríks og Pálmi Gunnars öll sín léttari lög eftir og hentu í leiftrandi blús. Inn á milli hljómuðu þekktari blúslög Magga Eiríks á borð “Blús í G” og blúsarana hans KK. Lög Blúskompaníssins ná að kafa inn að beini blússins þrátt fyrir að vera á íslensku, en það er mjög vandasamt að ná því. Þeim tókst það samt á þessum tónleikum.

Miðvikudagskvöldið átti bandaríska blússtjarnan Victor Wainwright. Victor þessi hefur unnið til fjölda verðlauna innan blúsgeirans þar vestra þrátt fyrir að vera aðeins 33 ára gamall og var sæmdur Pinetop Perkins verðlaununum árið 2013 (Pinetop Perkins Piano Player of the Year). Spottarnir, Johnny And The Rest og blússveit Jonna Ólafs sáu um að hita áhorfendur upp og má segja að Johnny And The Rest hafi komið mest á óvart því þeir náðu salnum algjörlega á sitt vald þann stutta tíma sem þeir spiluðu og endurspeglaði plötusala þeirra í hléi þann árangur. Victor Wainwright kom hins vegar, sá og sigraði. Ásamt Nick Black gítarleikara sínum og íslenskum meðleikurum sem sáu um bassaleik og trymbilslátt keyrði Victor prógrammið í hátt í tvo tíma án þess að blása úr nös. Það var mikill húmor í prógramminu hans og mikil fjölbreytni; allt frá hægum og hráum blús upp í hraðasta boogie woogie þar sem Victor sýndi hreint ótrúlega takta á píanóið. Einnig slæddist inn lag úr Bugsy Malone söngleiknum og margt fleira skemmtilegt. Hápunkturinn á tónleikum Victors var að mínu mati lagið I´d rather go blind sem Etta James gerði frægt en Victor tók það einmitt í minningu um þessa svakalegu söngkonu sem lést á síðasta ári. Þvílík útgáfa af einu lagi. Hann tók það alveg svakalega hægt þannig að lagið rétt hékk saman og trommarinn Birgir Baldursson fylgdi honum með fallegum áslætti á pákur og diska. Tilfinningin sem Victor setti í flutninginn var ólýsanleg. Þetta var ekki lag, þetta var tjáning, tjáning úr annarri vídd. Hann fór í svo mikinn fílíng að ég sá ekki betur en tárin streymdu niður hvarma hans og oft hætti hann að syngja í míkrófóninn. En það skipti engu máli. Það þurfti ekki míkrófón til að ná þessari snilld inn. Þetta var klárlega hápunktur hátíðarinnar.

Botninn var sleginn í hátíðina á skírdag þar sem fram komu Bee Bee and the Bluebirds, Egill Ólafsson og gamlir félagar hans úr Stuðmönnum og Þursaflokknum og Vinir Dóra enduðu svo dagskrá festivalsins með 25 ára afmælistónleikum sínum. Menningargersemin Egill Ólafsson tók náttúrulega sviðið yfir gekk vel frá sínu. Vinir Dóra voru flottir eins og venjulega og sýndu þeir Guðmundur Pétursson og Halldór Bragason flotta takta á gítarinn og fóru í gegnum alla stílanna sem til eru í blúsnum. Hápunkturinn var endirinn á tónleikunum þeirra þegar allir listamennirnir komu upp á svið og blúsuðu saman. Fyrst mætti Tómas bassaleikari og tók Þursaflokkslagið goðsagnakennda “Jón var kræfur karl og hraustur”. Síðan bættust fleiri blúsarar við og þegar mest var voru tveir trommarar, tveir bassaleikarar, fjórir gítarleikarar, tveir píanóleikarar, munnhörpuleikari allir að blúsa undir svaðalegum söngtöktum þeirra Egils Ólafssonar og Victors Wainwright. Flottur endir á flottri hátíð.

Segja má að Blúshátíð Reykjavíkur sé eiginlega árshátíð blúsáhugamanna á Íslandi. Þetta er einfaldlega flottasta hátíð sinnar tegundar hér á landi. Ef þú ert áhugamanneskja um blústónlist þá máttu ekki láta þessa hátíð framhjá þér fara. Hátíðin hefur löngu fest sig í sessi sem ómissandi þáttur í tilveru hins íslenska blúsara og mun vonandi gera það áfram næstu ár og áratugi.

Hrafnkell Már Einarsson

MYNDIR