From the blog

From the blog

Iceland Airwaves 2014 – Fimmtudagur: Fyrri hluti

iceland_airwaves_2014_logo

Það var frekar kalt í veðri þegar haldið var á Slippbarinn um fimm leytið á öðrum degi Iceland Airwaves 2014. Vinnudagurinn var á enda runninn og tími til kominn að sjá og finna eitthvað sem er lífsnauðsynlegt: list og samfélag.
Á Slippbarnum höfðu Low Roar komið sér fyrir og þessi glæsilegi bar var nú smekkfullur og kokteilar og aðrar veigar þutu upp í munn og ofan í maga á flestum gestum staðarins. Daginn áður hafði undirritaður sætt sig við að standa í kuldanum fyrir utan 12 tóna á meðan Low Roar lék fyrir fjöldann en nú var kominn tími til að sjá hvað þeir höfðu fram að færa. Low Roar hófu leika á laginu Breath In af nýjustu plötu sveitarinnar, 0, sem kom út fyrr á þessu ári. Upphafsstefið gaf laginu mikla dýpt og flutningurinn var afbragð. Tilfinningar streymdu fram og hljóðheimur Low Roar var einstakur og spennandi. Hljómsveitin keyrði á efni af nýjustu plötu sinni og blandaði lögum sínum vel saman í einn góðan lifandi graut. Áhrifavaldar sveitarinnar eru greinilegir en Low Roar stendur vel með sínu og áhrif gera tónlistana einungis aðgengilegri og kunnuglegri og faðma hlustandann einhvern veginn að sér. Einstök sveit sem vert er að fylgjast alvarlega með. Hljómsveitin er nýkomin heim frá tónleikaferðalagi um Bandaríkin með Ásgeiri (Trausta) en heldur til Evrópu þann 12.nóvember nk. Low Roar verða eitthvað stórt.

Teitur Magnússon tók vel á móti gestum sínum á Bravó um klukkan sex. Teitur, sem er einna þekktastur sem gítarleikari og annar söngvari reggísveitarinnar Ojba Rasta, hefur nú gefið út sína fyrstu sólóplötu. Hefur þá smáskífan, Nenni, náð töluverðum vinsældum á íslenskum útvarpsstöðvum. Teitur var hér vopnaður klassískum gítar einum saman og gerðu nylon-strengir gítarsins og hlý og vinaleg rödd Teits þessa stund á Bravó mjög huggulega. Teitur stefnir nú að því að kynna plötu sína fyrir landanum og mun þá njóta aðstoðar góðra vina. Camel gulur á því. Utandagskrártónleikar Iceland Airwaves 2014 náðu að skapa hálfgerða Þorláksmessustemmingu í miðbænum. Á tímabili var fjöldi erlendra ferðamanna og Íslendinga á Laugaveginum óbærilegur en allstaðar mátti sjá bros á vörum og almenna jákvæðni og vinsemd. Skammdegið, nístingskuldinn og handahófskennda hávaðarokið dróg fólkið saman á heilbrigðan og góðan hátt. Alveg eins og þetta á að vera á hátíðum.

Einn af þeim stöðum sem buðu upp á utandagskrárviðburði var Bunk bar (áður Backpackers) við Laugaveg. Þar var ráðgert að sjá Íkorna (Stefán Örn Gunnlaugsson). Íslenska söngkonan Dísa var að ljúka við sína tónleika þegar komið var á staðinn en virtust þeir ganga einstaklega vel og heimtuðu gestir meira. Þar sem smávægileg seinkun átti sér stað og mannmergðin ógurlega tók brátt völdin var stoppið ekki eins langt og áætlað var. Íkorni lék efni af samnefndum frumburði sínum (2013) í liðsfylgd nokkurra vel reyndra vina sinna úr senunni. Poppað og hreint efni sem náði til gesta. Íkorni hafði þó aðeins tíma fyrir handfylli af lögum og þurfti því frá að hverfa vegna annarra tafa. Hæfileikar Stefáns Arnar til lagasmíða eru óneitanlegir og verður spennandi að heyra hvað hann hefur fram að færa á væntanlegri plötu Íkorna.
Mugison var næstur í röðinni á Bunk bar en einnig kallaði líkaminn á kaffi og sessu. Þar sem engin leið var að komast að þjónustuborðinu/barnum og panta sér kaffibolla var ferðinni heitið á Prikið. Prikið, sem þekkt er fyrir bombandi bassa og fjör, varð hálfgerður griðarstaður þreytts penna þegar líða tók á helgina. Þetta kvöldið bauð starfsfólks Priksins upp á tónlistina úr Twin Peaks, kertaljós og gott kaffi. Algjörlega ómissandi og endurnærandi. Best að passa sig á Bob.

 

Daníel Hjálmtýsson