From the blog

From the blog

Iceland Airwaves 2014 – Fimmtudagur: Seinni hluti

iceland_airwaves_2014_logo

Það er oft sjúklega fyndið hvað gott kaffi og Twin Peaks tengjast vel. Þeir sem hafa horft á þáttaröðina skynja. Aðrir hugsanlega ekki. Af þeim sökum var gengið einsamall með bros á vör og hlæjandi með sjálfum sér að einhverju sem hafði spilast í sjónvarpinu fyrir löngu síðan. Fyndið og hugsanlega stórfurðulegt? Hver veit?
Gamla bíó var nærri tómt þegar undirritaður gerði sér leið inn um hið klassíska og teppalagða anddyri hússins með fiðring í maganum af spennu. Spennu vegna breytinga á húsnæði, sem undirritaður í raun tengist ekki persónulega né hefur hagsmuna af því að gæta. Fyndið og hugsanlega stórfurðulegt? Hver veit?
Húsið tók á móti mér eins og gamall vinur sem hafði eignast fallegt og heilbrigt barn. Eitthvað stórkoslegt og frábært. Salurinn, þó enn ókláraður, býður nú upp á standandi rými, þar sem áður voru þröngir gangar og ævaforn sæti en einnig gefst tækifæri á að setja inn sæti, ef þess yrði krafist. Semsagt fjölnota, fallegur og sögulegur salur í miðbænum. Eins gott að húsið sé friðað!

Sindri Eldon & The Ways voru fyrsta hljómsveitin sem undirritaður sá í nýju Gamla bíói. Salurinn var þægilegur en aðsóknin ekki nærri eins áköf og kvöldið áður. Sindri kom fram ásamt þeim Ásmundi Jóhannssyni á trommur og Friðriki Friðrikssyni á bassa og léku þeir grípandi rokk í anda bandarísks háskólarokks. Náði Sindri góðu sambandi við gesti hússins og grínast með þeim á reiprennandi ensku. Gestirnir tóku vel undir og sýndu honum og hans virðingu og dilluðu sér með. Ágætis byrjun á kvöldinu en ekkert nýtt undir sólinni í sjálfu sér. Einfaldlega rokk og ról þar sem spilagleðin tekur öll völd og smitar hvern sem er.

Hljómsveitin Muck var stofnuð árið 2007. Það eru komin sjö ár síðan og virðist gullöld sveitarinnar ekki langt undan. Muck skrifuðu nýverið undir útgáfusamning við Prosthetic Records og mun fyrirtækið gefa út komandi breiðskífu sveitarinnar en nýlegasta breiðskífa Muck, Slaves (2012), vakti mikla lukku í íslensku harðkjarnasenunni.
Hljómsveitin steig á stokk, setti fyrsta tón, átti í minniháttar basli með hljóðnema en sprengdi svo Gamla bíó og gesti í loft upp. Hljóðið var ágætt en enn er unnið að því að finna besta hljóminn í nýjum sal og því skiljanlegt að nokkuð ómi enn í salnum sem státar af mikilli lofthæð. Muck var skítsama og virtust ekki kippa sér upp við mikið nema það eitt að koma sínu á framfæri. Bassinn og trommuslátturinn varð stundum til þess að innyfli gesta hristust eins og kokteill og suðið í eyrunum varð töluvert. Hardcore-thrash-tilraunakennt-pönk skellti gestum í gólfið, nuddaði þeim upp úr svita sinum og faðmaði það svo í mesta bróðerni. Þvílíkur kraftur! Frammistaða í hæsta gæðaflokki og spennandi verður að sjá hvernig fer á nýjum útgáfusamning með nýja plötu í febrúar 2015. Muck lengi lifi!

Tilhlökkunin fyrir nýjum sal blandaðist vel við tilhlökkun um komandi daga og hafði undirituðum hlakkað verulega til að líta og heyra hina íslensku Fufanu aftur. Ljúfir drengir og verulega efnilegar lagasmíðar sem leyfa hinum látna kafteini, sem hóf siglingu þeirra Hrafnkels Kaktusar Einarssonar og Guðlaugs Einarssonar fyrir nokkrum árum að hvíla í friði. Captain Fufanu einkenndist af sterku og miklu bræðralagi þeirra Kaktusar og Guðlaugs en Fufanu er nú orðið bræðralag þriggja og hefur Frosti Gnarr fullkomnað þrennuna sem er Fufanu. Hljómsveitinni til aðstoðar þetta kvöldið voru þeir Karl Stallborn (Muck) á gítar og Einar Helgason, sem sá um tölvur og hljómborð.
Gamla bíó hafði fyllst af fólki og mátti líta kunnuglegt andlit herra David Fricke, sem beið spenntur eftir að hlýða á og uppgötva. Fufanu stigu á svið með lykkjur af vegabrölti og myndum af ökrum, fjölbýlishúsum, rafmagnsstaurum og fleiru sem á vegi okkar verður á þjóðvegum, lestarteinum og sveitavegum lífsins. Steig hljómsveitin á svið með mikið sjálfstraust og tók á skarið en ekki leið á löngu þar til eitthvað virtist ekki eins og það átti að vera. Sást á hljómsveitarmeðlimum að þeir hugsuðu það sama. Endaði með því að söngvari sveitarinnar kvæsti í hljóðnemann og spurði hver fjandinn væri í gangi. Eitthvað virtist bilað.
Hljómsveitin stöðvaði lagið og lagaði til það sem þurfti. Báðu þeir áhorfendur sína þá afsökunar og minntust fyrri tónleika Captain Fufanu á Iceland Airwaves 2011, þar sem svipað ástand hefði skapast og þeir supu kveljur. Áfram héldu þeir þó.
Erfiðlega tókst þeim þó að ná sér aftur á flug og virtist eitthvað enn bilað. Fann undirritaður þá sérstaklega til með sveitinni þegar allt bilaði aftur. Biðjandi áhorfendur sína innilegrar afsökunar og þakkandi fyrir komuna, settist Hrafnkell Kaktus á sviðið og spjallaði við gesti sína. Á meðan virtust aðrir meðlimir sveitarinnar reyna að græja hlutina. Hljóp þeim þó þá ekkert skap og söngvarinn Kaktus sat í öngum sínum á sviðinu og reyndi að útskýra vandræðin. Óskað var eftir aðstoð úr sal en ekkert virtist ganga upp. Tóku áhorfendur Fufanu þá í fangið eins og vinur sem huggar vin og fögnuðu þeim gífurlega og sýndu þeim virðingu á meðan loksins hófst að keyra tölvubúnað sveitarinnar aftur í gang. Allt kom þó fyrir ekki og eftir að hafa rennt í hið magnaða og grípandi Circus Life, var ákveðið að kveðja og skilja við þetta kvöldið. Áhorfendur sýndu hljómsveitinni sínar bestu hliðar og hafði kurteisi, fagmennska og yfirvegun Fufanu framleitt þær hliðar án efa. Höfðu hér Fufanu kitlað áhorfendur vel og vænlega og áttu þeir eftir að sína mátt sinn þessa helgina. Fufanu átti eftir að rísa úr ösku þessara tónleika, líkt og Fönix og sýna mátt sinn og megin. Vilja þeir þó án efa gleyma fyrstu heimsókn sinni í nýtt Gamla bíó sem fyrst.

Röðin fyrir utan var nú orðin töluverð og klukkan sömuleiðis farin að nálgast miðnætti. Strætisvagn og heyrnartól urðu því fyrir valinu en sú ákvörðun átti eftir að svíða þar sem ákveðin erlend sveit átti eftir að skila af sér einu áhugaverðasta setti Iceland Airwaves 2014 að margra mati. Sú sveit var hin ástralska og klikkaða King Gizzard & The Lizard Wizard. Einnig áttu Grísalappalísa, með Megas í fararbroddi, eftir að búa til fjandi gott dansiball að mati margra. Vagnstjórinn keyrði eins og óður væri á meðan tónar The Velvet Underground skiluðu undirrituðum heim eftir annað kvöld Iceland Airwaves. Hvað ætli hann hafi verið að hlusta á?

Daníel Hjálmtýsson