From the blog

From the blog

Iceland Airwaves 2014 – Föstudagur: Fyrri hluti

Airwaves 14

Föstudagurinn var runninn upp á Iceland Airwaves 2014 og ekki seinna vænna en að taka daginn snemma og kíkja á tónleika. Undirritaður átti leið hjá einum af ógrynni tónleikastaða bæjarins með nemendahóp sinn þennan morguninn og ákveðið var að kíkja á Rökkurró á Slippbarnum á hádegi. Nemendurnir, sem slá nú í sitt seinasta ár fyrir táninginn, virtust hrifnir af huggulegri samblöndu af rafpoppi og krútti og hljómsveitin virkaði örugg. Slippbarinn var enn og aftur troðinn af gestum og virtist þessi AM og PM stemming ekki skipta fólk miklu máli. Runnu kokteilarnir niður kverkar ansi margra morgna sem kvölds á meðan espressovélarnar öskruðu yfir barinn. Nemendurnir, sem gæddu sér á heimatilbúnu nesti sínu, voru í samfloti við yngri nemendur leikskóla í nágrenninu og fjölskyldustemming og afslöppun einkenndi hádegisbilið sem lattélepjandi kennarinn, nestiskjamsandi nemandinn eða kokteilsmakkandi hipsterinn fíluðu vel.

Þegar nemendur höfðu komið sér heim eftir annasaman og listríkan dag í skólanum, hélt kennarinn á Bar 11 þar sem Ezra Furman frá Chicago var auglýstur. Klukkan var að ganga þrjú og vinnuvikan að klárast svo hugsanlega myndi ekkert verða of troðið fyrr en örlítið seinna. Viti menn; Pakkað! Enn og aftur var útilokunin algjör og varð raunin litrík samtöl við erlenda gesti sem veltu vöngum yfir því hvert skyldi halda nú. Furman á nefnilega að vera þrusugóður og er að margra mati einn þeirra gesta hátíðarinnar sem vert er að fylgjast með á næstunni. Þó, ekki þennan daginn.

Leiðin lá þá upp kæran Laugaveg. Dimma voru að troða upp á Bunk bar og þótti freistandi að sjá hvernig slíkt band myndi koma sér fyrir á slíkum stað. Dimma var í fullu risi og þungarokkið barst norður og suður. Eitthvað var plássið innan veggja staðarins og því best að líta inn. Þungarokkið lifir í hjörtum margra og áhugavert var að fylgjast með leðurklæddum meðlimum Dimmu skemmta sér og öðrum á sviði. Allir aldurshópar voru mættir og gleðin virtist vel við völd. Þegar þétta tók og vömbin var farin að játa sig sigraða gegn handriðum, var unnt að halda förinni áfram, enda nóg eftir af deginum.

Sindri Eldon & The Ways voru að gera sig klára á Dillon eftir fína frammistöðu kvöldið áður í Gamla bíó. Rólegra var yfir troðningnum hér og andrúmsloftið þægilegt. Hljómsveitin lék sín lög og gafst fólki tækifæri til að hlýða á þetta ágæta band og dilla sér aðeins með í sínu rými og það virtist gott að geta aðeins andað og slappað af frá troðning og æsing. Var þá sest niður og ráðstafanir gerðar fyrir komandi kvöld. Rætt var við gamla og nýja vini um haf, haga og Airwaves og á góðri íslensku; „tjillað aðeins“.

„Tjillið“ varð þó ekki langt og Laugavegurinn var orðinn ansi kaldur og dimmur þegar undirritaður hélt áleiðis á enn eitt hótelið í miðbænum. Alda hótel er nýbyggt og býr yfir skemmtilegum bar og þjónustuvild. Hljómsveitin Vio bauð gesti barsins og hótelsins velkomna í verulega þægilegri og afslappaðri stemmingu. Nú er úti norðanvindur, svo sannarlega!

Vio eru núverandi krúnuberar Músíktilrauna og leika kunnulegt og tilfinningaskotið popprokk. Mosfellsbærinn á heiðurinn af þessum drengjum sem allir slá rétt yfir tvítugt. Frumburðurinn er væntanlegur frá sveitinni og mátti heyra að aðeins þarf að slípa nokkra hluti betur saman og þá er hér að finna fínasta band. Taugatrekkingur og afslappað rými (fullkomin og óskipt athygli) var hér einnig áhrifavaldur en þó virtist sveitin í góðu jafnvægi. Staðurinn var einstaklega huggulegur með fjölda sófa og púða um allar trissur og gestum virtist líða vel. Þó var heimsóknin ekki ætluð sófakúri, heldur til að hitta góða vini og sjá góða tónlist. Eitthvað sem Farao frá Noregi átti eftir að færa þúsundfalt.

Gripin var gleðistund á rakarabarnum í formi vökva og haldið aftur að sófakúrinu, sem þó varð ekki nema vingjarnlegt bros milli vina, lyfta á glasi og halli upp að vegg. Farao kom hér fram í fyrsta sinn á Iceland Airwaves (líkt og Vio) og er sólóverkefni tónlistarkonunnar, Kari Jahnsen.  Hér studdist Jahnsen við aðstoð nokkurra vina sinna en Jahnsen leikur afbragðs góða og ljúfa indie tónlist sem litast af elektróník, hjartnæmum og tilfinningaríkum textum og söng og einstaklega grípandi lagasmíðum. Náði Farao þá að heilla, svæfa, græta, bæta og kæta í einum graut af frábærum flutning (bæði af eldri EP plötu sinni og tilvonandi LP plötu, sem væntanleg er á næstu misserum). Einstaklega hlýtt og gott á annars dimmum og ísköldum föstudegi en klukkan var rétt skriðin yfir sex.

Daníel Hjálmtýsson