From the blog

From the blog

Iceland Airwaves 2014 – Laugardagur: Seinni hluti

Airwaves 14

Á göngunni að Hörpu var mikið rætt um hvað skyldi gera ef röðin væri yfirþyrmandi og að vinahópurinn þyrfti að tvístrast. Í mikilli vinsemd var ákveið að hver maður réði sér sjálfur og áætlað var að hittast síðar um kvöldið.
Yfirþyrmilegt varð vægt til orða tekið. Röðin náði nú út fyrir hússins dyr í Hörpu og mætti halda að listamaður hefði sett upp gjörning að framkvæma mannlegan leik í anda snake-leiksins í gömlu Nokia símunum innan veggja Hörpu. Ekki var það svo gott. Grunurinn reyndist réttur og vinahópurinn tvístraðist. Sumir reyndu á röðina á meðan aðrir ákváðu aðra staði til að njóta þetta kvöldið en lukkulega hélt för undirritaðs áfram, inn á flugvöll og upp stigann í vélina og voru þar The Knife við stjórnvölinn að þessu sinni. Mannmergðin var ógurleg og erfitt að færa sig til og frá herbergjum en stemmingin var góð og allir virtust glaðir og hressir. Tónleikar The Knife þóttu með stærstu tónleikum hátíðarinnar og ekki við öðru að búast en yfirþyrmandi aðsókn með tilheyrandi röð. Tónar The Knife yfirgnæfðu ganga Hörpunnar en þó virtust margir kjósa gangavörðinn frekar og spjallið frammi. Undirritaður leit þá einnig fram og hugnaðist betur að hvíla eyrun fyrir Hozier með Radical Faces í ágætu stuði.

 

Hozier er Íri. Magnað en satt. Íri sem spilar amerískan blús í bland við poppaða útímatónlist. Röddin í Andrew Hozier-Byrne bauð fólk velkomið og mætti oft halda að hér væri um aðila sem hefði verið í bransanum í ansi mörg ár. Hozier var að senda frá sér sína fyrstu plötu. Hann náði vel til fjöldans og allt varð virkilega huggulegt og stofulegt. Svona á við gott stofupartý með frábærri músík. Hozier flutti efni af frumburði sínum, sem nefnist einfaldlega Hozier og sprakk nánast allt þegar söngvarinn og gítarleikarinn renndi í aðalsmellinn af plötunni, Take Me To Church. Lagið hefur átt gríðarlegu góðu gengi að fagna hér á landi og annarsstaðar í heiminum en lagið deilir um samkynhneigð og trúarbrögð og tengir vel við umræðuna. Svo er það líka alveg ofboðslega vel samið og flott. Frábært gigg.
Frá Hörpu var haldið á Gaukinn. Á röltinu stökk upp í hugann að þetta væri jú seinasta kvöld Iceland Airwaves 2014 (þannig séð..) og hvað hefði verið verst að missa af, tók yfir hugann. Þó, var það svo mikið að því stöddu að ekki var vert að halda í þær hugsanir. Tónleikarnir hlupu á hundruðum og var óraunsætt að ætla sér að sjá þá alla. Þannig er það.

 

Perfect Pussy er leidd af söngkonunni Meredith Graves. Graves kynnti sig fyrir undirrituðum þegar hún skrifaði langa og mikla grein um tilburði Mark Kozelek (Sun Kil Moon/Red House Painters) sem heldur hér tónleika þann 28.nóvember nk. Í greininni les hún yfir söngvaranum vegna ummæla hans um hljómsveitina The War on Drugs (sem ekki verður farið nánar út í hér). Perfect Pussy voru góð en lögin renndu oft saman í einn graut. Framkoman var töff, hljóðið gott en eitthvað vantaði upp á ákveðna sérstöðu. Gaukurinn var aftur pakkaður (líkt og flestir staðir í bænum) og stemmingin góð. Mæli með að athuga Perfect Pussy. Þau hafa verið starfandi frá 2012. Kannski verður næsta plata aðeins sérstæðari og rífur sveitina upp?

 

Eftir hina fullkomnu píku (kött?, gungu?) var gott að hitta góða vini og skála yfir glæsilegri hátíð. Margir hverjir að spila sjálfir og margir í sömu stöðu og undirritaður. Rætt var um hvað hefði verið best og mest á hátíðinni og hvort bjórinn væri góður. Jólabjór Gull er ekki besti jólabjórinn í ár. Það var ákveðið.

Í miðju spjalli biður rauðhærður rokkari okkur um að færa okkur aðeins ti. Kurteis og síðhærður. Við færum okkur til og síðar inn og hlýðum á tóna The Vintage Caravan.
The Vintage Caravan virðas hafa verið til lengur en undirritaður en þó, eiga ansi langt í þrítugt. Hefur þeim tekist að skapa sér nafn og reynslu hér heima og erlendi á ansi skömmum tíma og virðist þrotlaus kraftur hamstursins í þeim búa. Hljómsveitin er orðin tónleikaband fyrir víst. Eftir mikinn tíma í rútum og á sviðum Evrópu eru þeir nú orðnir atvinnumenn í að kveikja bál og halda því gangandi. Þéttir og flottir og eitthvað sem allir Íslendingar ættu að fylgjast vel með. Nýjasta plata þeirra er líka ágætis jólagjöf fyrir pabba. Þetta er svona pabbarokk, kannski?
Þreytan var farin að segja til sín þegar Brain Police tóku sviðið á Gauknum. Klukkan var orðin ansi margt en samt virust allir í fíling. Virtust fáir kippa sér upp við klukkuna eða álagið og lyftu glösum í andköf yfir eyðimerkurstolti okkar Íslendinga, Brain Police. Brain Police vinna nú að breiðskífu sinni, sem enn hefur ekki fengið nafn en sveitin hefur ekki gefið út í töluverðan tíma. Nýtt efni fékk að fljóta með og virtist boða ákveðnar breytingar á hljóðheimi sveitarinnar. Aðeins meiri sýra í bland við góða jörð? Það gæti verið. Góð sýra í það minnsta. Jens Ólafsson, söngvari sveitarinnar, hefur getið sér gott orð fyrir að kveikja bál og halda þeim gangandi og jafnvel skvetta bensíni yfir. Hér var engin breyting á og virtist Jens (Jenni) halda fólki á sínu valdi í öllum sínum gjörðum. Það var þó komið að enda kvöldsins hjá undirrituðum og var haldið heim á leið. Góðu kvöldi lokið en þó var blómið ekki smakkað.

 

Daníel Hjálmtýsson