From the blog

From the blog

Iceland Airwaves 2014 – Sunnudagur

iceland_airwaves_2014_logo

Það var tregafull gleði sem tók við undirrituðum þegar litið var inn á Kaffibarinn á sunnudeginum góða. Spennan fyrir aðalatriði hátíðarinnar um kvöldið var sýnileg og nær áþreifanleg en Oddur gerði kaffið mun betra og timburmennina hjá gestum Kaffibarsins viðráðanlega. Poppað, íslenskt og þægilegt var efnið hjá Oddi og með honum fylgdu nokkrir góðir vinir úr tónlistarsenu landans og varð blandan einstaklega fersk og hugguleg. Oddur renndi í efni af frumburði sínum, sem kom út fyrr á árinu og tengdi vel við gesti sína með innilegu og hlýju viðmóti. Allir þunnir. Takk samt fyrir að koma og sjá okkur. Viðmótið skapaði einstaka og fallega stemmingu á annars fremur myrkum sunnudegi. Airwaves var að klárast.

Kuldabolinn sem ofsótti hátíðargesti var farinn að banka aftur upp á og var nær óhugsandi að ganga að Vodafone höllinni. Varð þá leigubíll fyrir valinu og ákveðið að koma sér snemma á staðinn. Ekki var margt um manninn þegar komið var í höllina en um hálftími var í uppáhalds hljómsveit Mark Kozelek, The War on Drugs. The War on Drugs koma frá Philadelphiu í Bandaríkjunum og hefur verið til í nær áratug eða allt frá árinu 2005. Hljómsveitin státaði af hinum einstaka Kurt Vile í upphafi en hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar á sínum stutta ferli. Er hljómsveitin nú skipuð sex meðlimum og leidd af hinum sérvitra Adam Granduciel (Granofsky). Undirritaður hafði rennt nýjustu breiðskífu hljómsveitarinnar, Lost in the dream, í gegn í fyrsta sinn þennan daginn og kom sveitin skemmtilega óvart. Þar sem undirritaður er mikill aðdáandi tónlistar Kurt Vile kom stefna TWOD mjög á óvart. Einhverskonar samblanda af Bob Dylan í bólinu með Mark Knopfler og DIre Straits með Stevie Nicks og Lindsay Buckingham hinum megin í herberginu. Allskonar gæði í góðum graut en gerði þó tónlistina ekki sérstæða á ákveðinn hátt. Mark Kozelek (Sun Kil Moon/Red House Painters) hafði deilt á sveitina fyrir að leika bjórauglýsingarokk og átti það alveg við á tímum. Varð upplifunin þá mjög góð af tónleikum sveitarinnar og þá einna helst þegar hugdettur hins sérvitra Kozelek komu upp í hugann. Tónleikarnir runnu smurt en samband listamanna við gesti sína var lítið sem ekkert og söknuðu áhorfendur hugsanlega einhverra tengsla. Hugsanlega. Einnig var þægilegt að geta vafrað á milli, spjallað, fengið sér hressingu, farið á klósettið og þess háttar án þess að standa í biðröð eða þröngva sér um.

Wayne Coyne hafði sést í Hörpunni kvöldið áður þar sem The Knife áttu leik. Með dömu upp á arminn, klæddur í ljósbrúnan, stóran pels og með gráu krullurnar sínar var hann nú mættur til að heilsa hátt í þrjú þúsund manns. Coyne gekk fyrir sínum mönnum í The Flaming Lips og heilsaði áhorfendum eins og ekkert væri. Engin slökkt ljós, engar atrennur eða töffaraskapur, heldur bara beint og klárt halló, við erum komnir. Eru ekki allir í stuði?
Coyne var, sem áður, klæddur upp í litríka múnderingu með klappstýrulegt fluff(?) á höndunum og í einhverskonar furðulegri dúnúlpu. Virtist honum ekkert vera neitt heitt og mætti halda að menn gerður vart svalari. Þegar áhorfendur höfðu heilsað með öskrum og lófataki kynnti Coyne til leiks par af risastórum ormum. Dönsuðu ormarnir um en eftir innkomu ormanna áttu jólasveinninn, sólin og fleiri góðir risagestir, eftir að gera gesti glaða.

Tónleikarnir byrjuðu fyrir alvöru þegar bandið renndi í eitt allra vinsælasta lag sitt Yoshimi Battles The Pink Robots Pt. 1 af samnefndri plötu sveitarinnar frá árinu 2002 og risastór blaðra, Fuck yeah, Reykjavík!, sveif yfir fjöldanum. Gestir höfðu búist við mikilli sýningu en hér var allt á suðupunkti og virtist ekkert lát á skrautinu, risavöxnum gestum á sviðinu og allt virtist mögulegt. The Flaming Lips höfðu breytt Vodafone höllinni í Reykjavík í ævintýraheim þar sem allt var mögulegt og allir voru kátir. Coyne hélt gestum við efnið og tengslin voru frábær. Undirritaður tók kipp þegar sýrukenndur kafli sveitarinnar breyttist (af mikilli fagmennsku) yfir í hið stórkostlega Race For The Prize frá árinu 1999 og sprungu nú táningsminningar fram og nostalgían var algjör. She Don´t Use Jelly hafði einnig kveikt nokkrum bjöllum frá fyrri árum og fann undirritaður sig nú við hlið vinar síns, syngjandi hástöfum með og í raun, missandi allt kúlið. The Flaming Lips höfðu sigrað og stjórnuðu nú fjöldanum líkt og vélmennum. Bleikum vélmennum.
Sveitin renndi í góða blöndu af efni frá ferlinum en allt virtist aftur mögulegt þegar konungur möguleikana, Wayne Coyne, blés um sig stóra plastkúlu og rúllaði sér syngjandi og skríðandi yfir áhorfendur. Ótrúlegt og magnað! Þvílíkur kraftur og sál í einum manni.

The Flaming Lips kvöddu gesti stuttu eftir að Coyne kom sér úr kúlunni en voru klappaðir upp í hið goðsagnakennda Do you realize? af Yoshimi… og virtust allir syngja með Coyne og þakka vel fyrir þetta brjálæðislega kvöld. Sveitin flutti svo ábreiðu sína af Bítlalaginu Lucy in The Sky With Diamonds og fóru gestir heim á leið flautandi eða sönglandi það áhyggjulausa lag. Var þá nærri því að sveitin hafi sett áhorfendur í hálfgerð gleðiálög og brosandi andlit tónleikagesta streymdu úr höllinni. Það var komið að lokum hátíðarinnar. Þetta var búið. Brosin lifðu þá hugsanlega ekki of lengi en hátíðin kemur aftur. Alveg eins og jólin og gleðin og allt saman. Það kemur allt aftur. Hresstu þig við og horfðu á björtu hliðarnar. Miðasalan fyrir næstu hátíð er alveg að byrja.

Daníel Hjálmtýsson