From the blog

From the blog

Iceland Airwaves – Föstudagur: Seinni hluti

iceland_airwaves_2014_logo

Vindurinn blés bítandi kuldanum innan á klæðin og varð engan veginn vinur undirritaðs og vinar þegar í ljós kom að Bíó Paradís bauð aðeins upp á gluggaskoðun af hinni bandarísku og hálf nýsjálensku Unknown Mortal Orchestra. Ástæðan að sjálfsögðu yfirfullur staður. Hljómsveitin virtist standa vel fyrir sínu og stemmingin innandyra virtist frábær. Kuldinn beit þó kinnar á við snaróða frænku á ættarmóti og var því ákveðið að hlaupa að Eymundsson og athuga hvort Mr.Silla hafði lokið sínu eður ei. Seinagangurinn var þó töluverður og bókabúðin ágæta því nýtt í stutta setu og klósettpásur. 
Þar sem stefnt var að löngu kvöldi var nauðsyn að næra sig. Varð Prikið þá aftur fyrir valinu sem afslöppunarstaðsetning fyrir komandi klikkun.

 

Af Prikinu var haldið af stað í Fríkirkjuna í Reykjavík. Fríkirkjan hefur ávallt þjónustað hjartastað borgarbúa. Ekki einungis vegna fegurðar sinnar sem gnæfir yfir Reykjavíkurtjörn og hefur gert í yfir hundrað ár, heldur einnig vegna allra þeirra tónleika sem hún hefur veitt húsaskjól í gegnum tíðina. Virðist kirkjan nú orðin fullur þátttakandi í Iceland Airwaves, hundrað-og-eitthvað ára gömul. Vér fögnum því!
Snorri Helgason hefur verið tíður gestur á bæði Iceland Airwaves og í Fríkirkjunni yfir árin. 
Það var rótt yfir og kuldinn, rokið og maraþonveisla margra var farin að segja til sín. Snorri bauð gesti sína velkomna með efni af plötu sinni Autumn Skies og honum til halds og traust voru þau Sigurlaug Gísladóttir (Mr.Silla), Magnús Trygvason Eliassen trymbill allra landsmanna auk tveggja annarra góðra gesta, sem undirritaður kunni né sá, því miður, ekki skil á. Léku þau saman efni Snorra af stakri snilld og hvert sem augað leit hölluðu gestir sér upp að sessunaut sínum, maka eða vin og stálu sér vænum blund við fagra tónlist Snorra og hans flokks. Jafnvel þó flestir virtust reyna að halda augum sínum opnum til að bera þau augum. Minnti ögn á lítil börn sem neita að sofna en gera það bara samt á mjúkan koddann. Var ekki langt í draumahöllina hjá undirrituðum en fagnaðarlæti gesta í lok tónleika urðu til þess að flestir vöknuðu upp úr vægum draumaheimi sem skapaðist og héldu endurnærðir á vit nýrra ævintýra. Tónleikar sem seint renna gestum úr minni.

 

Valið stóð nú á milli þess að halda áfram í rónni í kirkjunni hlýju eða halda í stóra glerhúsið þar sem eitthvað dularfullt var að gerast í kjallaranum. Valið í raun svart og hvítt eða upp og niður og lítið grátt svæði á milli. Æj, ég þarf líka að komast á klósettið og það er endalaus röð hérna. Kjallarinn!
Kaldalón Hörpunnar bauð upp á svokallað FALK kvöld þetta föstudagskvöldið. „Fuck Art Let´s Kill“ og hana nú. Döpur hóf upp raust sína. Sveitin er sólóverkefni Krumma nokkurs Björgvinssonar (Mínus, Legend, Esja o.fl.) en nýlega bættist Linnea Hellström við verkefnið. Sat Hellström svartklædd við hljómborð á gólfinu á meðan Krummi, einnig svartklæddur, barði gítarinn sinn og öskraði af lífs og sálar kröftum í hljóðnemann með hávaðann stilltan á ellefu. Einn aðstandenda kvöldsins, Aðalsteinn Jörundsson (AMFJ), kom þá hendi færandi með FALK krónur og undirritaður kom sér fyrir í sæti á fremsta bekk. 
 Yfir Krumma og Hellström gnæfði myrkur köttur með áletruninni Döpur og hér var eitthvað óútreiknanlegt, tilfinningaþrungið og rosalegt að gerast. Einhverskonar sprengja sem skildi gesti eftir með augun opin, vitin skýr en hugann reikandi.
Hvað var að gerast? Eitthvað sem mun gera vart við sig á næstunni og eitthvað sem opnaði skurðinn sem þú hélst gróinn. Einskonar; „þú varðst að vera þarna…“.

 

Harpa er orðin hálfgerð félagsmiðstöð á Iceland Airwaves. Sem er gott. Hún veitir vörn og skjól (er þó ekki gömul og góð eins og úlpan) fyrir bítandi kulda, selur veigar, plötur, varning, mat, státar af fjölda salerna, mislöngum biðröðum, allskyns fólki og fleira. Tilkoma Hörpu á Iceland Airwaves er og hefur verið töluvert á milli tannana á fólki en enginn getur neitað því að gott er að koma þarna saman, grípa sér hressingu, spjalla við fólk og slaka aðeins á.

 

Mugison og hans fylgdarlið var í fullum skrúða í Silfurbergi þegar loks var komið upp á næstu hæð en stemmingin á uppleið var eins og að flykkjast um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli og Mugison var flugstjórinn með slagarann sinn Murr Murr í fararbroddi. Gæti verið verra. Hér virtust raðir líka í góðu lagi og troðningur minniháttar. Sem gerði staðinn mun þægilegri og aðgengilegri fyrir vikið. Leiddi það þó oft til þess að margir gleymdu sér frammi á gangi hinum í góðum og hollum samræðum og gerðist það einmitt þegar einn hápunktur dagsins, Farao, steig á svið í Norðurljósum. Salurinn var vel troðinn og þurftu sumir því að sætta sig við að fylgjast með úr fjarska, nánar tiltekið úr anddyri salarins. Farao og hennar fylgdarlið virtust hvergi bangin frá tónleikum sínum fyrr um daginn og skapaðist góður rómur af frammistöðunni og tónleikarnir virtust ganga mjúklega fyrir sig. Samtölin, klósettpásurnar, millibilsvafrið og góða skapið skilaði undirrituðum vel af sér á Gaukinn þar sem Fufanu áttu næsta leik og heimtuðu uppreisn æru.

 

Gleðin var við völd og rými Gauksins vel nýtt þegar Fufanu léku sinn leik. Eftir einstaklega erfitt miðvikudagskvöld, virtist sveitin nú yfir það komin og tilbúin. Gengið hafði verið frá búnaðarbilunum og allt í góðu standi. Gestir Gauksins fylgdust með af aðdáun og sveitin lék við hvern sinn fingur. Hér var eins og miðvikudagskvöldið hefði aldrei átt sér stað. Eða að það hafi, í stað þess að draga úr vindinum, gefið þeim mun sterkari byr í seglin. Hljóðið var þétt og flott og státaði Gaukurinn nú af nýju og endurbættu hljóðkerfi en þó, ekki að ósk aðstandenda staðarins. Hafði þá ákveðinn herramaður keyrt allt í botn kvöldið áður og bókstaflega sprengt kerfið á staðnum. Nóg um það en svona lagað gerir maður ekki, vinur minn! Skamm!
Lán í óláni virtist þetta þó vera og hljómuðu Fufanu sterkir og reiðubúnir fyrir heimsyfirráð. Vottur af þunglyndi og uppgjöf, dass af eðal töffaraskap, þéttar lagasmíðar og myndrænir og grípandi textar, láta þetta allt ganga upp. Gestir virtust taka ansi vel í efnið og Fufanu fékk svo sannarlega uppreisn æru á Gauknum þetta kvöldið.

 

Gaukurinn átti eftir að verða dvalarstaðurinn það sem eftir lifði af þessu föstudagskvöldi Iceland Airwaves 2014 og næst í röðinni voru Black Bananas frá Bandaríkjunum.
Black Bananas er leidd af söngkonunni Jennifer Herrema (áður Royal Trux) en bandið, sem áður kallaða sig, Rad Times Express, hefur gefið út tvær plötur. Nú síðast í júní. Þegar bandið steig á svið var ljóst að hér var um söngkonu sem hefði lifað. Gítarleikara sem hefur tekið nokkurn þátt og aðra meðlimi sem svifið hafa með. Risastór teppi, úlpur, derhúfur og hettupeysur sáu til þess að söngkonan var nær ósýnileg þegar hún kynnti sig og sína fyrir áhorfendum eftir nokkur lög. Gestir tóku bandinu vel og meðlimir virtust klárir og svalir. Þó, þetta kvöldið. virkaði blandan af töffaraskap og óreiðu ekki vel. Áhorfendur náðu ekki að tengja þegar líða tók á og eitthvað virtist bandið illa fyrir kallað. Þó er óhætt að mæla með plötum sveitarinnar, Electric Brick Wall (2014) og Rad Times Express IV (2012), fyrir áhugasama. Töluverð vonbrigði en kvöldið hélt áfram án afláts. Var það þá í höndum Íranna í Girl Band að halda uppi fjörinu.
Girl Band eru að stíga ágætlega upp í senunni í dag og leika hávaða(noise) rokk. Virtist hávaðarokkið þó frekar þurrt og þunnt fyrir smekk sumra en þó náði sveitin að hrífa gesti Gauksins með sér með fínni sviðsframkomu og héldu Spray Paint frá Bandaríkjunum svipaðri stemmingu og Gaukurinn bókstaflega troðfylltist.
Tónlist Spray Paint var lýst sem pönk árás sem myndi skilja áhorfendur sýna eftir grátbiðjandi um meira pönk í fésið. Undirrituðum fannst þó eitthvað vanta í þær yfirlýsingar og virtist bandið þétt og öruggt en skorti ögn þetta pönk í fésið, eins og lýsing á sviðsframkomu þeirra hljómar. Varð því hinn erlendi þríleikur rokktónlistar frá Írlandi og Bandaríkjunum, örlítil vonbrigði. Þó nánari athugun á öllum aðilum sé klár.

 

Það var í höndum hinna íslensku Agent Fresco að loka kvöldinu á Gauknum og klukkan var nú að ganga þrjú um nótt. Troðfullur Gaukur bauð sveitina velkomna og sveitin, í ljósadýrð og njótandi sín einstaklega vel í nýju hljóðkerfi, lék slagara í bland við nýtt efni. Náðu Agent Fresco þá þeirri tengingu við gesti sem fyrri bönd kvöldsins hugsanlega skorti og úr varð eitt allsherjar partý. Söngvari sveitarinnar, Arnór Dan, átti stórleik í að halda gestum sínum við efnið og hikaði ekki við að blanda geði við áhorfendur í miðjum lögum. Flutningur sveitarinnar var þá til fyrirmyndar og nýja efnið spennandi. Þar sem undirritaður hafði fórnað framkomu sveitarinnar á miðvikudagskvöld, var þetta einstaklega góður endir á löngum og góðum degi. Sveittur og lurkum laminn Gaukurinn sat eftir með húsfylli af fólki og klukkuna rúmlega hálf fjögur og Airwaves guðirnir sáu til þess að leigubíll beið beint fyrir utan dyrnar til að flytja lúinn penna beinustu leið heim. Æðislegt.

 

Daníel Hjálmtýsson