From the blog

From the blog

Pixies og Mono Town í höllinni

PIXIES PROMO 640x400

Pixies komu í annað sinn til Íslands á dögunum til tónleikahalds. Fyrir 10 árum spilaði sveitin í Kaplakrika, var þá í endurnýjun lífdaga og þótti af mörgum spekingum ekki standa sig. Ég var á þeim tónleikum og þótti þeir ágætis skemmtun.

Nú voru tónleikarnir haldnir í Laugardalshöllinni og sveitin með nýja músík í farteskinu. Hin íslenska Mono Town sá um að hita mannskapinn upp og gerðu það vel enda fín og fersk sveit á ferðinni sem eru að gera góða hluti með frumburði sínum, In the eye of the storm. Mono Town eru ekki Pixies ókunn enda hefur sveitin hitað upp fyrir Pixies á erlendri grundu undanfarið.

Sviðsetning tónleika Pixies var frekar látlaus en smekkleg og tók ekkert frá músíkinni sjálfri sem er jú aðalatriðið. Pixies hóf leik á skikkanlegum tíma á íslenskan mælikvarða og strax varð ljóst að konfekt kvöld væri í vændum. Pixies lék stóra slagara í bland við lítt þekktari lög ásamt skammti af nýju efni. Lagavalið var alveg þrusugott, eitthvað fyrir alla.

Pixies liðar voru í góðu spilaformi og hljómburður með ágætum. Pixies voru ekkert að lufsast á sviðinu og engar ræður voru haldnar né yfirlýsingar, þau einfaldlega keyrðu í gegnum prógrammið og leyfðu músíkinni að njóta sín. Stemmingin var með ágætum þó tónleikarnir væru á virku kvöldi, tónleikarnir voru vel sóttir þó ekki var uppselt. Lítið var um ölvun og ekkert vesen né leiðindi þetta kvöldið sem er alltaf stór plús.

Það hefur varla farið framhjá neinum Pixies aðdáendum að á síðasta ári sagði Kim Deal bassaleikari og söngkona sveitarinnar skilið við félaga sína. Í hennar stað kom Kim Shattuck en var aðeins með í nokkra mánuði áður en Paz Lenchantin tók við keflinu. Paz þessi er þekktust fyrir að spila með eðal sveitinni A Perfect Circle og þótti mér hún standa uppúr þetta kvöld með Pixies.

Þetta var frábær stund með Pixies og Mono Town í höllinni. Vel gert að flytja bandið heim til Íslands og miðað við viðbrögðin sem ég fékk frá þeim fjölmörgu tónleikagestum sem ég spjallaði við þá ríkti almenn gleði með giggið.

Paunkholm