From the blog

From the blog

Reykjavík Folk Festival 2014

Bjartmar Guðlaugsson

Reykjavík Folk Festival var haldin í þriðja sinn dagana  6. – 8.mars á Kex Hostel við Skúlagötu. Eins og nafnið gefur til kynna snýst hátíðin um þjóðlagatónlist og hin fjölmörgu afsprengi hennar. Á dagskránni er leitast við að hafa sem fjölbreyttastan hóp listamanna úr ólíkum áttum sem eiga það þó sameiginlegt að tónlist þeirra á eitthvað skylt við þjóðlagatónlist.

Upphafsmaður hátíðarinnar var Ólafur Þórðarson heitinn, tónlistarmaður úr hljómsveitinni Río Trío. Eftir andlát hans tók Snorri Helgason tónlistarmaður við keflinu og sér nú um framkvæmd og skipulagningu hátíðarinnar. Rafmögnuðum hljóðfærum er að mestu lagt til hliðar og kassagítarar og strengjahljóðfæri sjá um að gefa fólki á öllum aldri tækifæri til að koma saman og hlusta á þjóðlagatonlist í notalegri stemningu í hjarta Reykjavíku

Eins og í fyrra var hátíðin í litlum sal inni í Kex Hostel en þar var ákaflega hlýlegt um að litast. Sviðsljósin sáu að mestu um lýsingu inn í rýminu og kertaljósum var raðað allan hringinn í salnum. Flytjendur og áhorfendur voru mjög nálægt hvor öðrum og varð til þess að alla hátíðina var afskaplega heimilsleg stemning yfir tónleikunum. Flytjendur tóku reglulega létt spjall við áhorfendur, svona rétt eins og tónleikarnir væru bara heima í stofu hjá þeim. Gríðarleg nánd skapaðist því í salnum og gerði alla hátíðina þeim mun persónulegri.

Fimmtudagur 6.mars

Bassagítarleikarinn Skúli Sverrisson opnaði hátíðina og honum til halds og trausts voru Ólöf Arnalds á gítar og Óskar Guðjónsson á saxófón. Tónlistin var mjög djasskotin og tilraunakennd, einhvers konar djassbræðingur með þjóðlagaáhrifum enda Skúli þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir í sköpun sinni. Kraftmikil rödd Ólafar bætti heilmiklu við tónlistina og Óskar átti stórleik á saxófóninn. Hljómsveitarstjórinn Skúli hélt svo öllu saman með gríðarþéttum gítarleik. Salurinn var nokkurn veginn hálffullur en strax myndaðist gríðargóð stemning.

Elin Ey var næst á svið og var hreint út sagt frábær. Tónlist hennar er erfitt skilgreina en kemst sennilega næst því að vera indípopp með þjóðlagaáhrifum. Milli laga var hún feimin og talaði lágt en söng hvert einasta lag af slíkri innlifun að það hefði mátt heyra saumnál detta í salnum. Hún tók einnig frábæra útgáfu af Fleetwood Mac slagaranum Dreams. Glæsileg frammistaða hjá listamanni á hraðri uppleið.

Kristín Á. Ólafsdóttir var næst á svið og með henni var gítarleikarinn Páll Eyjólfsson. Þar fengum við fyrsta af mörgum sögumönnum sem komu fram á hátíðinni enda sagnalistin nátengd þjóðlagahefðinni. Á bakvið hvert lag fengu áhorfendur ofurlitla sögu og kunnu vel að meta. Kristín fór um víðan völl á söngskránni og tók meðal annars þjóðlög, bæði íslensk og erlend og baráttusöngva héðan og þaðan úr heiminum. Flott kvöld hjá Kristínu sem býr enn yfir mjög tærri og kraftmikilli rödd.

Ofurgrúppan Drangar lokuðu kvöldinu en hana skipa Ómar Guðjónsson á gítar og bassa, Jónas Sig á trommur og Mugison á hljóðgervla. Sannkallaðir þungavigtarmenn í íslensku tónlistarlífi. Þeir skáru sig talsvert úr þetta kvöld enda eina hljómsveitin sem spilaði ekki órafmagnað. Tónlist þeirra átti líka kannski meira skylt við klassískt rokk frá sjöunda áratugnum heldur en þjóðlagatónlist en það skipti engu máli. Þeir voru í fantaformi, gríðarþéttir og spiluðu af miklum krafti og gott ef flestir voru ekki farnir að hreyfa hausinn með áður en yfir lauk.

Heilt á litið var kvöldið mjög vel heppnað og gaf góð fyrirheit um það sem koma skyldi

Föstudagur 7.mars

Talsvert meira var af fólki þetta kvöld og salurinn var þéttsetinn nánast frá upphafi til enda. Kristjana Arngrímsdóttir opnaði dagskránna og sá til þess að hún rynni ljúflega af stað. Tónlistinni mætti lýsa sem afar lágstemmdri og djasskotinni þjóðlagatónlist. Áhorfendur sem flestir voru í fullorðnari kantinum kunnu gríðarlega vel að meta flutninginn og klöppuðu trióiið upp í eitt aukalag.

Næst á svið var hljómsveitin Hymnalaya sem var fyrsta indíehljómsveitin sem kom fram á hátíðinni og tilheyrði jafnframt talsvert yngri kynslóð en flytjendurnir á undan. Hljómsveitin er gríðarfjölmenn en hún samanstóð af gítarleikurum, söngvurum, trommara, blásturleikurum og fiðluleikurum. Tónlistin var þjóðlagaskotin indietónlist undir sterkum áhrifum frá hljómsveitum á borð við Arcade Fire og Bon Iver. Þau voru mjög krúttleg og notaleg en voru kannski ekkert að finna upp hjólið. Þau kom þó ekki að sök og þau skiluðu sínu vel.

Goðsögnin Bjartmar Guðlaugsson var næstur á svið og þar fengum við enn einn listamanninn úr ólíkri áttinni. Strax frá byrjun hafði hann salinn í hendi sér og áhorfendur klöppuðu og sungu með nánast öllum lögunum. Bjarmar er gríðarlega skemmtilegur á sviði og var nánast með uppistand á milli laga þar sem hann fór yfir víðan völl, sögur af íslenskum fylleríum, gömlum konum á þorrablótum fyrir austan, útsendara framsóknarflokksins og margt fleira. Svo taldi hann í hvern slagarann á fætur öðrum, Árni Járnkall, Súrmjólk í hádeginu að ógleymdri klassíkini Týnda Kynslóðin en það hlýtur að teljast eitt frægasta alþýðulag íslandsögunnar. Frábær frammistaða hjá listamanni sem virðist oft gleymast í umræðunni á Íslandi.

Bubbi Morthens lokaði kvöldinuásamt hljómsveit. Hann tók þá ákvörðun að spila sín minna þekktari lög sem verður að teljast nokkuð sérstakt í ljósi þess hvað hann á gríðarlega mörg lög sem náð hafa vinsældum hér á landi. Bubbi var gríðarlega einlægur í flutningi sínum og sagði sögur af því hvernig lögin urðu til og um hvað þau fjölluðu. Minningar sem um vini sem féllu frá vegna fíkniefnaneyslu og upprifjun á dögum hans á vertíð í Bolungarvík sem táningur. Spilamennskan var gríðarþétt og áhorfendur fóru langflestir sáttir heim enda ekki á hverjum degi sem Bubbi spilar á svona litlum tónleikum.

Laugardagur 8.mars

Fyrstur á svið þetta síðasta kvöld var ljúflingurinn og eðalmennið KK. Hann var frábær að vanda, spjallaði við salinn milli laga um daginn og veginn, algjörlega laus við stæla. KK endaði kvöldið á Vegbúanum sem er alltaf jafn fallegt, hversu oft sem maður heyrir það. Þó nokkrir þurrkuðu tár of kinnum að því loknu.

Nýliðinn Soffía Björg var næst á svið og stóð sig afar vel. Tónlist hennar var mjög lágstemmd og seiðandi og svolítið djasskotin, myndi smellpassa í bíomynd eftir Tarantino. Heyra mátti nokkur áhrif frá hljómsveitinni The National. Soffía og hljómsveit spiluðu eingöngu frumsamið efni og eiga eflaust eftir að láta meira að sér kveða á næstunni.

Steindór Andersen var þriðji á svið og var mættur til þess að kveða rímur eins og Íslendinga var siður forðum daga. Rímnakveðskapur er gríðarlega stór hluti af íslenskri þjóðlagahefð og því kærkomið að fá Steindór á hátíðina. Þetta form af flutningi, að kveða rímur, er aðferð til að gefa bundnu máli meira líf. Ljóðin eru tónuð með mjög óljósu lagi, hálfgerðu söngli. Steindór var mjög góður og sérstaklega kunnu eldri áhorfendur vel að meta flutning hans

Snorri Helgason sá um að loka hátíðinni þetta árið ásamt hljómsveit sinni en hann er eins og áður kom framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Tónlist hans flokkast undir nokkurs konar indie-folk en einnig mátti heyra keim af bluegrass og country tónlist.

Einnig var ljóst að Snorri og félagar höfðu einhvern tíma hlustað á Neil Young og Bob Dylan. Þau voru gríðarþétt og lokuðu hátíðinni með glæsibrag.

Það er ekki mjög oft sem svona mikil nánd skapast á tónleikum og gerir upplifun áhorfenda persónulega. Eftir stendur vel heppnuð hátíð sem á sennilega bara eftir að festa sig betur í sessi á komandi árum.

Sigurður Marteinsson

MYNDIR