From the blog

From the blog

Rokkjötnar – umfjöllun

u6DT8ROyrbSN9jlfAbPUaBxmjOWLw4-zDhkXtSqWhkc

Árið 2012 spratt fram hugmynd. Hugmynd um að halda gríðarstóra rokktónleika í Kaplakrika í Hafnarfirði og það með alíslenskum rokkhljómsveitum.

Tónleikarnir fengu titilinn Rokkjötnar og stefnan varð alíslenskt rokk og þungarokk. Hljómsveitirnar HAM, Skálmöld, Sólstafir og Brain Police leiddu þar rjómann af íslensku rokksenunni og úr varð stórkostleg veisla sem stóð frá miðjum degi, langt fram á kvöld.

Veislan gekk vel og ákveðið var að endurtaka leikinn árið eftir (2013). Ekki gekk það þó sem skyldi og neyddust aðstandendur til að fresta tónleikunum um tíma en upp spratt mikil umræða í íslenskum tónlistarheimi um líf og gildi rokksins á Íslandi og í heiminum yfir höfuð og Rokkjötnar fundu mikinn byr undir vængi sína.

Það varð svo snemma árs (2014) að aðstandendur og velunnarar þungarokksins hér á landi tóku að skoða möguleikana fyrir endurkomu Rokkjötna. Einstaklega vel tóks til og meðbyrinn sem hófst árið 2012 gerði vart við sig og Rokkjötnar 2.1. urðu að veruleika. Veislusalnum var þó breytt og varð nú Vodafonehöllin í Reykjavík veislusalur íslenskra Rokkjötna árið 2014. Veislan var sett þann 27.september sl.

Melrakkar voru fyrstir á svið á Rokkjötnum 2.1. og varla hægt að ímynda sér betri byrjun.

Meðlimir Melrakka einblína á tónlist amerísku þungarokksveitarinnar Metallica og er hljómsveitin samansafn af rokkurum úr helstu rokksveitum Íslands; Mínus, Sólstöfum, Skálmöld og HAM.

Veislan hófst fyrir alvöru strax við fyrsta tón og húsið troðfylltist. Stemmingin var góð og aðsókn virtist hvorki einkennast af stéttarstöðu, aldri (enda aldurstakmark ekkert ef forráðamaður var viðstaddur), klæðaburði eða öðru og virtust allir vera komnir saman í einum og sama tilgang; að rokka!

Allt var hér til fyrirmyndar og hljóð og ljós í hágæðum höfð. Aðstandendur höfðu þá gert vel við gesti sína með allskyns básum þar sem varningasala fór fram, gítarsmíðakynningar, veitingasala (með áletruðum hljómsveita Coke flöskum) og fleira og séð var fyrir öllu sem hugur rokkarans girntist.

In Memoriam stigu næstir á svið og rifjuðu upp gamla takta. Gestir virtust taka vel í þessar gömlu hetjur íslensks þungarokks og jafnt þeir sem báru bleyjuna og þeir sem báru leðurjakkann á hátindi ferils In Memoriam, þeyttu flösu. Krafturinn var til staðar og Rokkjötnar 2.1. urðu töluvert þyngri í desíbelum með hverri mínútunni. Gömlu kempurnar í Strigaskór nr.42, sem fylgdu félögum sínum eftir, hafa verið starfandi í hartnær tvo áratugi en hljómsveitin leikur hreint og beint dauðarokk. Nafn sveitarinnar hefur þó líkast til villt um fyrir nokkrum yngri gestum hátíðarinnar en misskilningurinn var fljótt leiðréttur með þrusu keyrslu og örygginu uppmáluðu. Strigaskórnir fagna þá tuttugu ára afmæli plötu sinnar, Blót, á þessu ári. Hljómsveitin Beneath bauð upp á meira dauðarokk en hljómsveitin hefur verið ein sú vinsælasta á sínu sviði tónlistar allt frá stofnun hennar. Vakti hljómsveitin þá mikla athygli, bæði innan sem utan Íslands, þegar sveitin varð fyrsta íslenska hljómsveitin til að koma fram á Wacken Open Air hátíðinni. Árin hafa gert sveitina betri og framsæknari og var öryggið uppmálað í flutningi þeirra og framkomu. Andlitsmálning var nú í hávegum höfð og dauðarokkið í algleymingi.

Klukkan færðist nær og nær miðnætti og þegar kvöldið var um hálfnað stigu íslensku eyðimerkur/stóner rokkjötnarnir, Brain Police á svið. Sveitin lék ögn aðgengilegra rokk og ról og salurinn tók vel undir söng Jens Ólafssonar (Jenna). Sveitin lék ný lög af væntanlegri breiðskífu sinni í bland við eldra efni og ákvað trymbill sveitarinnar, Jón Björn Ríkharðsson (Jómbi) að ekki væri hægt að stíga af sviði án þess að græja eitt trommusóló og kveikja í kjuðum sínum. Sveitin hélt gestum hátíðarinnar vel við efnið sem nú, þegar þrjár sveitir áttu eftir að stíga á stokk, höfðu baðað sig í gómsætri blöndu úr íslensku þungarokksenunni með sæmd og áttu nóg eftir.

Kúrekahattar, sígarettur, fléttur, skegg og óttalokkar (ef svo má að orði komast) einkenndu næstu sveit á svið, Sólstafi. Sólstafir hafa átt gríðarlegri velgengni að fagna að undanförnu og biðu margir í ofvæni eftir fyrsta hljóm. Fagnandi nýútkominni plötu sinni, Ótta, stigu Sólstafir öruggir og þéttir á svið og héldu gestum í sínum greipum allt til loka sinnar innkomu á Rokkjötna. Vein Aðalbjarnar Tryggvasonar í bland við þungan gítar, bassa og óreiðu greip gesti og heiðarleikinn í tónlist Sólstafa skilaði sér vel. Sólstafir virðast víkka sjóndeildarhring sinn í sínu fagi með hverju árinu og eru tónleikar þeirra nú orðnir eins og hálfgerð hugleiðsla þungarokkarans með ljóð – og myndrænum textum sem helst við þróun tónlistarinnar frá sönnu dauðarokki yfir í eitthvað mun frumstæðara og hljóm sem er algjörlega þeirra eigin.

Dimma hefur átt gríðarlega góðu gengi að fagna undanfarin ár en sveitin, sem á sér mikla og langa sögu, er nú loks orðin ein þekktasta rokksveit landsins og þannig farin að uppskera mikið lof fyrir lifandi frammistöðu sína og mikinn viðbúnað þegar kemur að því að halda alvöru rokktónleika. Stefán Jakobsson, sem gekk til liðs við sveitina fyrir nokkrum árum, þenur raddböndin að krafti og storkar helstu rokksöngvurum bransans við undirleik bræðranna Ingó og Silla Geirdal og kröftuga trymbilsins Birgis Jónssonar. Allt virðist ganga hér upp og sveitin hefur svo sannarlega fundið sína köllun og sinn tíma.

Þegar komið er að síðustu hljómsveit kvöldsins er húsið gjörsamlega fullt út úr dyrum. Skálmöld eru mættir og þakið nær rifnar af húsinu. Rómur er gerður að því að ótrúlegt sé að þak Vodafonehallarinnar gefi bókstaflega ekki undan við lætin. Skálmöld hefur, þrátt fyrir aðeins hálfan áratug í bransanum, sannað sig sem ein vinsælasta þungarokksveit landsins og þátttaka þeirra í Rokkjötnum þetta árið ýtti undir þann orðstír og vel það. Spilagleðin og bræðralag meðlima á sviði og virðing þeirra við áhorfendur sína og kringumstæður hverju sinni er einkar aðdáunarverð og öryggið, fasið og framkoma til einstakrar fyrirmyndar. Skælbrosandi, sveittir, öskrandi og rífandi í hljóðfæri sín við truflaðar undirtektir gesta, gaf áður nefndum byr, storm undir vængi. Vængi sem sannarlega munu svífa hátt inn í næsta ár og renna stoðum sínum undir Rokkjötna um ókomin ár.

Stórkostlegur endir á veislu, sem um tíma hékk í lausu lofti en fékk sína uppreisn æru og stimplaði sig án nokkurs vafa inn í íslenska tónlistarsenu fram í guðanna hel.