Events

Events

Danskir DagarDanskir dagar eru elsta bæjarhátíð á Íslandi, en fyrsta hátíðin var haldin árið 1994 og fagnar hún þá 20 ára afmæli sínu í ár. Ekki aðeins eiga Danskir dagar afmæli, heldur einnig verða þeir þeirrar virðingu aðnjótandi, ásamt öðrum útvöldum hátíðum, að fá að prýða frímerki sem Íslandspósturinn gefur út seinna á þessu ári.
En aftur að hátíðinni. Stykkishólmur hefur lengi átt í miklu sambandi við Danaveldi í gegnum verslun og var því haldið fram að Hólmarar töluðu alltaf dönsku á sunnudögum. Þótt þeirri hefð hafi ekki verið haldið við eru þó haldnir danskir dagar til að fagna þessum menningararfi Hólmara. Fráfluttir Hólmarar nýta tækifærið og heimsækja vini og ættingja í Stykkishólm og fjölskyldur sameinast á ný þessa helgi í ágústmánuði. Hverfin eru skreytt í dönsku fánalitunum og fá ný nöfn, sem passa vel við þemað. Dagskráin er fjölbreytt og fjölskylduvæn, en miðað er að allir aldurshópar geti fundið eitthvað fyrir sig. Á laugardeginum er komin hefð fyrir því að enda á balli og verður Páll Óskar plötusnúður þar í ár, sem og seinustu ár.